Pylsuvagn matsölustaður ársins

Fyrsti danski pylsusalinn sem leggur áherslu á lífrænt hráefni hafði betur í samkeppninni við víðfræg veitingahús þegar matsölustaður ársins í Kaupmannahöfn var valinn.

Það eru margir Íslendingar sem láta það vera sitt fyrsta verk þegar þeir koma til Kaupmannahafnar að kaupa sér pylsu. Danir eru sjálfir sólgnir í þennan sígilda rétt. Þess vegna er aldrei langt á milli pylsuvagnanna og allir bjóða þeir upp á sömu útfærslurnar af pylsum í brauði. Nema sá sem kallast Den økologiske pølsemand (Døp) og stendur við Rundetårn, Sívala turninn. Hann var í dag útnefndur sigurvegari í valinu á matsölustað ársins í Kaupmannahöfn.

Í þessum pylsuvagni er allt hráefnið lífrænt og eins hollt og hægt er. Svína- og nautapylsurnar eru því settar í súrdeigs heilhveitibrauð og hægt er að fá baunadressingu og blöndu af rótargrænmeti í staðinn fyrir hið klassíska meðlæti. Þessi lífræna bylting í pysluvagnageiranum hófst í nóvember síðastliðnum og borgarbúar hafa tekið nýbreytninni fagnandi. Til marks um það eru öll atkvæðin sem pyslustandurinn fékk meðal lesenda Politiken þegar árlegt val á matsölustað ársins fór fram nýverið. Skipti þá engu að hinir staðirnir sem tilnefndir voru hafa allir hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og notið vinælda hjá dönskum sælkerum. Pylsurnar höfðu samt sigur úr býtum.

Hefðbundin pylsa hjá lífræna pylsusalanum kostar 34 danskar krónur sem er nokkrum krónum dýrara en hjá keppinautunum. Á móti kemur að þessar hollu eru mun meira mettandi en hinar.

Á heimasíðu vagnsins má finna frekari upplýsingar og á þessu korti má sjá hvar hann er staðsettur við Købmagergade 52.

NÝTT EFNI: Borg og baðströnd í einni ferð

TENGT EFNI: Nýir ódýrir veitingastaðir í Kaupmannahöfn

Mynd: Copenhagen Media Center