EasyJet gæti neyðst til að skipta um nafn

Eigendur næst stærsta lággjaldaflugfélags í Evrópu gætu þurft að finna nýtt nafn á félagið vegna deilna við stofnanda þess.

Í síðustu viku sagði stofnandi EasyJet flugfélagsins, Stelios Haji-Ioannou, sig úr stjórn félagsins. Samkvæmt fréttum var tilgangurinn sá að fá minni hlutahafa í lið með sér í deilum sínum við núverandi stjórnendur og meirihlutaeigendur. Þetta bragð Stelios virðist ekki ætla að ganga upp og hefur staða hans innan eigendahópsins versnað enn frekar í kjölfarið. En hann á þrjátíu og átta prósent í félaginu ásamt fjölskyldu sinni.
Stelios á þó ennþá tromp upp í erminni því vörumerkið, EasyJet, er hans persónulega eign. Leysist ekki deilan gæti hann því bannað félaginu að nota vörumerkið. Eins og gefur að skilja yrði það mikið áfall fyrir flugfélagið enda er það þekkt út um alla Evrópu.
Talsmaður félagsins gefur lítið fyrir þessi mögulegu nafnaskipti í breskum fjölmiðlum. Þrátt fyrir það hefur málinu verið skotið til dómstóla þar í landi. Þeir munu í næsta mánuði úrskurða um lögmæti samkomulagsins milli EasyJet og Stelios um notkunarrétt á nafninu samkvæmt frétt Boarding.dk.

NÝTT EFNI: Sofið í rúmi Greta Garbo og Smáréttasvall að hætti Baska

Mynd: Wikicommons