Ferðamenn sniðganga Grikkland

Verkföll og mótmæli hafa dregið úr áhuga fólks á að sækja Grikki heim í sumar. Verðlag á grískum hótelum fer hríðlækkandi.

Það er ekki bara á Íslandi sem ferðamannageirinn á í vök að verjast. Grikkir eiga i miklum vanda enda hafa verkfallsaðgerðir og mótmæli haft neikvæð áhrif á straum ferðamanna til landsins. Þannig hafa hátt í þrjátíu þúsund gistinætur verið afbókaðar síðustu vikur í Aþenu og nágrenni. Það munar um minna fyrir laskaðan efnahag Grikklands því ferðamálin vega þar þungt. 

Nú er svo komið að ferðaskrifstofur og hóteleigendur hafa lækkað verð um allt að helming enda hefur eftirspurnin eftir sumarferðum til Grikklands minnkað um fjórðung frá fyrra ári samkvæmt frétt á netsíðu The Times.

Eins og gefur að skilja telur yfirmaður gríska ferðamálaráðsins að landið sé kjörinn áfangastaður fyrir ferðamenn í sumar. Enda sé verðlagið þeim hagstætt í ár og forsendurnar fyrir því að njóta dvalarinnar séu jafn góðar nú líkt og áður.

NÝJAR GREINAR: New York öruggasta stórborgin
TENGDAR GREINAR: Ódýr ferðamannalönd

Mynd: Flickr.com / keithusc