Flugmiðar á útsölu

Þeir sem vilja komast lengra út í heim en íslensku flugfélögin fljúga geta fengið farmiðana ódýrt um þessar mundir.

Gosið í Eyjafjallajökli hefur valdið mikilli óvissu í ferðageiranum. Hún hefur áhrif á verðlagninguna eins og sést þegar skoðaðar eru heimasíður flugfélaganna í Evrópu. Þær skarta margar hverjar flennistórum auglýsingaborðum þar sem boðnir eru til sölu flugmiðar á spottprís. Meira að segja farmiðar sem gilda í sumar. Og framboðið á ódýrum miðum á eftir að aukast því British Airways hyggst efna til „brunaútsölu“ þegar verkfallsaðgerðir starfsmanna eru yfirstaðnar í byrjun júní, samkvæmt frétt Telegraph. Þar kemur líka fram að annar flugrisi, AirFrance/KLM, ætli að halda verðinu lágu í sumar. Sérfræðingar Telegraph telja að verðlækkun sé eina leiðin til að fá fólk um borð í vélarnar á nýjan leik. Að ógleymdum endalokum eldgossins.

Hér eru nokkur dæmi um tilboð til áfangastaða sem ekki liggja nærri þeim flugvöllum sem flogið er beint til frá Keflavík.

Innan Evrópu:

AIR BERLIN – Þeir sem eru áhugasamir um grísku eyjarnar geta flogið beint á nokkra þeirra frá Berlín. Verðið er í kringum þrjátíu þúsund íslenskar fyrir báðar leiðir. 

NORWEGIAN –  Sé ferðinni heitið til Balkanskaga eða Möltu þá er norska lággjaldaflugfélagið fínn kostur. Bæði frá Osló og Kaupmannahöfn. Önnur leiðin kostar frá 299 dönskum krónum.

SAS – Skandinavíska flugfélagið auglýsir lagersölu þessa dagana á farmiðum sem gilda í ágúst til október. Þeir sem eru á leið til Rússlands á þessum tíma ættu að kanna verðin en SAS flýgur til Moskvu og St. Pétursborgar og þessar tvær borgir eru meðal útsöluvaranna. 

Utan Evrópu:

AIR FRANCE – Það er hægt að fljúga langt með Air France frá París. Karabíska hafið heillar væntanlega marga og fram til áttunda júní er tilboð á flugi til nokkurra eyja. Verðin eru frá áttatíu þúsund íslenskum krónum.

BRUSSELS AIRLINES – Frá Brussel er flogið beint til margra borga í Afríku. Nokkrar þeirra eru núna á tilboðsprís.

KLM – Hollenska flugfélagið flýgur víða og á heimasíðu þess má finna tilboð á farmiðum til Asíu, Afríku og S-Ameríku. Tilboðsverðin gilda til 7. júní.

Íslenska leitarvélin Dohop er líka góður kostur til að leita að ódýrum flugmiðum.

NÝTT EFNI: Smáréttasvall að hætti Baska
TENGT EFNI: Ódýr hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: SAS