Nýtt met í fjölda hreinna baðstranda

Nærri þrjú þúsund baðstrendur uppfylla kröfur Bláfánans í ár. Algarve strandlengjan í Portúgal ber af.

Þann fimmta júní næstkomandi verður tilkynnt hvaða 2884 baðstrendur mega draga Bláfánann svokallaða að húni í sumar.  Aldrei áður hafa strendurnar sem fá þessa hreinlætisvottun verið jafn margar. Smábátahafnirnar sem uppfylla skilyrðin eru 627.

Þetta eru góðar fréttir fyrir þá sem ætla að stunda sjóböð í sumarfríinu. Og sérstaklega ef ferðinni er heitið til suðurhluta Portúgals. Því samkvæmt frétt Aftenposten í Noregi munu nítján strendur á Algarve svæðinu fá þessa alþjóðlegu vottun í ár. En hún er veitt fyrir framúrskarandi vistvæna umgengni og meðhöndlun úrgangs. Eins og segir á heimasíðu Landverndar, umsjónaraðila verkefnisins hér á landi.

Það eru sex staðir sem skarta Bláfánanum hér. Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík auk smábátahafnanna við Arnarstapa, Hafnarhólma á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn og Suðureyrarhöfn.

NÝJAR GREINAR: Flugmiðar á útsölu
TENGDAR GREINAR: Fallegustu baðstrendur í Evrópu

Mynd: Wikicommons