Ódýrast að gista í Malmö

Hótelverð hefur hríðlækkað á Norðurlöndum síðustu tvö ár. Ódýrustu hótelin í borgum frændþjóðanna eru í Malmö.

Kostnaður vegna gistingar vegur oftast þyngst í ferðalaginu. Sem betur fer hefur hótelgeirinn þurft að laga sig að breyttum aðstæðum og lækkað verðið á þjónustunni.
Á Norðurlöndunum hefur verðið lækkað mest í Stokkhólmi eða um 21 prósent samkvæmt tölum frá leitarsíðunni Hotels.com. Minnst hefur verðið breyst í Óðínsvéum eða aðeins um 2 prósent. Sem fyrr er ódýrast að gista í Malmö í Svíþjóð en þar kostar gistinóttin að meðaltali rétt rúmar fimmtán þúsund íslenskar krónur.
Malmö er ákaflega heppilegur valkostur fyrir Íslendinga því það er auðvelt að taka lestina þangað frá Kastrup flugvelli. Og það er ekki bara hótelverðið sem er lægra í Malmö en í nágrannaborginni, Kaupmannahöfn. Þar er líka ódýrara að borða og versla. Reyndar hefur munurinn minnkað örlítið síðustu vikur eftir að sænska krónan sótti í sig veðrið gagnvart þeirri dönsku.
Dýrustu gistinguna er hins vegar að finna í Osló, höfuðborg Noregs. Þar kostaði nóttin að meðaltali rúmar tuttugu þúsund íslenskar á síðasta ári samkvæmt Hotels.com. Noregur skipar líka annað sætið á listanum yfir dýrustu borgirnar því gistingin í Bergen er sú næstdýrasta. 

Hér er listi Hotels.com sem sýnir hvað nóttin kostar að meðaltali á hótelunum í hverji borg fyrir sig og hversu mikið hún hefur lækkað frá árinu 2008.

 Borg

Meðalverð árið 2009

Verðbreyting frá 2008

 1.
 Malmö 15.448 kr.
 -12%
 2. Gautaborg 17.216 kr.
 -14%
 3. Stokkhólmur 18.056 kr.
 -21%
 4. Helsinki 18.343 kr.
 -18%
 5. Álaborg 18.454 kr.
 -11%
 6. Óðinsvé 18.940 kr.
 -2%
 7. Árósar 19.757 kr.
 -11%
 8. Kaupmannahöfn 19.868 kr.
 -13%
 9. Bergen 20.045 kr
 -16%
 10. Osló 20.177 kr.
 -19%

 TENGT EFNI: Ódýr hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: Malmotown.com / Oskar Falck