Smáréttasvall að hætti Baska

Ef það er eitthvað sem getur tekið athyglina frá Guggenheim safninu í Bilbao þá er það helst allt lostætið sem fyllir barborð borgarinnar. Túristi fór á baskneskt pöbbarölt og krækti sér í bestu pintxos bitana.


Pintxos er baskneska útgáfan af tapas. Fyrir leikmenn er þó enginn stórmunur á þessum tveimur skólum við að útbúa smárétti og snittur. Pintxos er reyndar oftast borið fram á hvítu brauði og bitarnir eiga ekki að vera stærri en sem nemur tveimur munnbitum. Tapas er hins vegar oft borið fram í eldföstum mótum. Hvað sem þessum mun líður þá er erfitt að hugsa sér ferð til Spánar án þess að gera þessari matarmenningu landsins góð skil. Það skemmir heldur ekki fyrir að þetta er fremur ódýr máltíð og kosta pintxos bitarnir á bilinu eina til fjórar evrur.

Túristi var á ferð í Bilbao nýverið og hér er tillaga að rölti á milli átta góðra pintxos staða. Ferðin hefst í gamla bænum, Casco Viejo.

Victor Montes, Plaza Nueva 8
Þessi litli bar er við Plaza Nueva torgið. Risarækjur með majónesi og djúpsteiktur ostur, hvoru tveggja borið fram á brauði, bragðast vel. Kúnnahópurinn er eldra fólk, kerlingar í vatteruðum úlpum og karlar með baskahúfur. Fólkinu er greinilega kalt þó úti sé fínasta vorveður.

Sasibil, Calle Jardines 11
Hér hafa menn sérhæft sig í sjávarrétta pintxos. Úrvalið af saltfiskbitum, skelfiski og sardínum er því töluvert. Bitunum er raðað fallega í kæliskápa ofan á barborðinu til að halda þeim ferskum. Það er eftirtektarvert að staðurinn er reyklaus, en það er fáheyrt á Spáni.

Rio Oja, Calle del Perro 6
Þessi staður telst varla vera alvöru pinxtos staður því hér er áherslan lögð á tapas rétti sem hitaðir eru í örbylgjuofni og svo settir fyrir framan gestina sem standa við langt, U-laga barborð. Það er erfitt að bæla niður unaðshljóðin þegar þessi ljúffengu réttir eru borðaðir og skálað er í góðu cava. Saltfiskur með olíulegnum grilluðum papríkum er afbragðsgóður og kræklingur í tómatsósu er engu síðri. Það er því ekki að undra að staðurinn hafi hlotið sess í ferðahandbók Michelin (örbylgjuofninn hefur ekki slegið gagnrýnandann út af laginu). Réttirnir eru frekar stórir og einn dugar ágætlega sem hádegismatur fyrir þá matgrönnu og kostar um fimm evrur.

Xukela, Calle del Perro 2
Huggulegur matsölustaður þar sem fólkið stendur í þvögu upp við barborðið og smakkar á réttunum á meðan það skálar í víni eða bjór. Barþjónninn réttir fólki þá rétti sem það biður um en það tíðkast ekki hér í borg að fólk teygi sig sjálft eftir réttunum. Óhætt er að mæla með pintxos með laxi, ríkotta osti og grilluðum kúrbít.

Gatz, Calle Santa Maria 10
Í nokkra mínútna göngufæri frá Calle del Perro eru tveir staðir hlið við hlið sem báðir eru heimsóknarinnar virði. Gatz er einn af virtustu og verðlaunuðustu pintxos stöðum bæjarins. Bacalao al pil-pil er sérgrein hússins. Þykkur biti af létt steiktum saltfiski með grilluðum, sneiddum hvítlauk og hæfilegu magni af olíu. Salat með reyktri hráskinku á hvítu brauði er líka mjög gott. Skammtarnir eru passlega stórir þannig að hægt er að taka pintxosið í tveimur bitum líkt og lög gera ráð fyrir. Á Gatz er tekin síesta og staðurinn lokar því um hálf fjögur og opnar aftur um átta leytið. Þetta á við um marga aðra staði í borginni en sumir eru opnir allan daginn.

Irrintzi, Calle Santa Maria 8
Irrintzi er greinilega nýr af nálinni. Innréttingarnar eru bjartar og litríkar og barstúlkan nokkru yngri en starfsbræður hennar á hinum börunum. Grilluð paprika með bræddum osti smakkast vel og útgáfa Irrintzi af rækjum og majónesi er góð. Risarækjurnar mynda botninn í stað brauðs og ofan á liggur þykkt lag af hvítlauksmajónesi.

Eftir að hafa heimsótt sex staði í gamla bænum er stefnan tekin niður Calle Santa Maria og síðan beygt til hægri í átt að Arreatsko Subia brúnni. Þegar yfir hana er komið er stuttur spölur á næsta bar.

Café Iruna, Calle Colón de Larreátegui
Tvískiptur staður. Öðru megin er bar með pintxos og grilluðu kjöti á spjóti en hinum megin litríkur veitingastaður, innréttaður í litríkum Andalúsíu stíl. Þetta er einn af vinsælli stöðum borgarinnar og því margt um manninn á kvöldin. Á veitingastaðnum er þjónað til borðs og þetta er því góður staður til að hvíla lúna fætur enda stendur maður oftast upp á endann á pintxos stöðunum.

Bar Lekeitio, Calle Diputación 1
Tortillur eru aðal á þessum fallega bar í miðbænum og þær bragðast ljómandi vel. Í sömu götu er annar vel metinn pintxos staður, La Viño del Ensanche en þegar hér var komið var leiknum lokið enda hafði Túristi borðað nægju sína og vel það.

Eins og gefur að skilja er nauðsynlegt að leggja af stað í þessa för með tóman maga og það gæti verið nauðsynlegt að fá sér eins og einn tvöfaldan espressó þegar ferðalagið er hálfnað. Það er líka góð hugmynd að skipta rúntinum í tvo hálfleika og taka þann fyrri í hádeginu en þann seinni um kvöldið. Þá mætti gera Guggenheim safninu góð skil í hálfleik.

TENGT EFNI: Ódýrir og góðir veitingastaðir í Barcelona
NÝTT EFNI: Þar sem rokkstjörnurnar gista í París

Myndir: Túristi