Sofið í rúmi Greta Garbo

Í herbergi númer 204 á Kung Carl hótelinu í Stokkhólmi sofa gestirnir í rúmi sem áður tilheyrði leikkonunni leyndardómsfullu, Greta Garbo. Hún gisti langdvölum í þessu sama herbergi á fjórða áratugnum og hennar eigin rúmi hefur nú verið komið þar fyrir.

Garboherbergið á Kung Carl hótelinu í StokkhólmiFrægir fastagestir eru alla jafna góð auglýsing fyrir þá staði sem þeir sækja. Jafnvel löngu eftir að þeir eru dánir. Greta Garbo er sennilega þekktasta leikkona sem Svíar hafa alið. Hún dvaldi oft í herbergi númer 204 á Kung Carl hótelinu í Stokkhólmi þegar hún heimsótti föðurlandið á fjórða áratug síðustu aldar. Það er því ekki að undra að eigendi hótelsins hafi ákveðið að gera sér mat úr því þó langt sé um liðið.
Þann fimmtánda apríl síðastliðinn voru tuttugu ár liðinn frá því að Greta lést. Af því tilefni var herbergi 204 breytt í Garboherbergið og reynt að færa herbergið í það horf sem það var í þegar Greta bjó þar. Og sem meira er þá keypti hóteleigandinn rúm sem áður tilheyrði leikkonunni og kom því fyrir í herberginu. Dýnunni var reyndar skipt út en annars er rúmið í upprunalegu standi.
Fyrir ofan rúmgaflinn hangir mynd af þessari leyndardómsfullu leikkonu en Greta settist í helgan stein þegar hún var á hátindi ferilsins, aðeins 36 ára gömul.
Hún sagðist vilja vera látin í friði og flutti í stóra íbúð á Manhattan í New York. Þar lést hún tæpum fimmtíu árum síðar.

Þeir sem vilja halla sér í rúmi leikkonunnar þurfa að borga sem samsvarar tuttugu og sjö þúsund íslenskum krónum fyrir nóttina.

NÝTT EFNI: Smáréttasvall að hætti Baska
TENGT EFNI: Þar sem rokkstjörnurnar gista í París 

Mynd: Hotel Kung Carl