Spænskir dagar í Kringlunni

Spánn hefur verið vinsælasti áfangastaður Íslendinga um árabil. Um helgina er hægt að kynna sér það sem hæst ber í ferðamennsku þar í landi.
Spænskir dagar verða haldnir á Blómatorginu í Kringlunni 8. og 9. maí. Þar verður kynnt það helsta sem í boði er í spænskri ferðamennsku, auk þess sem spænsk menning, tónlist og flamencodans verður áberandi. Nemendur í gítarleik við Tónlistarskóla Húsavíkur flytja spænska tónlist og sýndur verður flamencodans, að ógleymdum getraunaleik þar sem gestum er boðið að svara nokkrum laufléttum spurningum. Glæsilegir vinningar eru í boði fyrir heppna svarendur. Samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá ferðamálaráði Spánar sem stendur fyrir kynningunni í Kringlunni. 

Ásamt því að kynna þá fjölbreyttu ferðamöguleika sem Spánn hefur upp á að bjóða er lögð áhersla á eftirtalin ferðamannasvæði á Spáni: Valencia, Alicante, Andalúsíu, Madrid og Mallorca. Nokkrir íslenskir ferðaskipuleggjendur taka einnig þátt.

Að sögn Margrétar Jónsdóttur, vararæðismanns Spánar á Íslandi, hefur Spánn verið vinsælasti áfangastaður Íslendinga um langt skeið og er kynning ferðamálaráðs Spánar hér á landi til marks um að Spánverjar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að kynna íslenskum ferðalöngum það sem þar er í boði. „Fjöldi spænskunema hér á landi hefur þrefaldast á undanförnum árum. Áður fyrr fóru íslenskir stúdentar mikið til til Parísar en nú er það Barcelona sem hefur  vinninginn, enda er borgin miðstöð lista, hönnunar og viðskipta og verulega margt þangað að sækja,“ segir Margrét.

Kynning ferðamálaráðs Spánar verður frá kl. 11 til 18 laugardaginn 8. maí og kl. 13-18 sunnudaginn 9. maí.

TENGT EFNI: Vegvísir – Barcelona