Þar sem rokkstjörnurnar gista í París

Frægt tónlistarfólk sem veit ekki aura sinna tal og er húsum hæft getur látið fara vel um sig í borg ljósanna. Það eru einkum fimm hótel í París sem höfða til þessa fámenna hóps fólks samkvæmt ferðatímaritinu CN Traveller.

Plaza Athénée
Svíturnar eru á stærð við stórar íbúðir á þessu glæsilega hóteli. Það fellur köppum eins og Bono og Jay-Z í geð. Kjallari hótelsins hefur að geyma eitthvað dýrasta safn af léttvínum sem til er í Frakklandi. En það tilheyrir veitingastaðnum, Alan Ducasse, sem er í húsinu og hefur hvorki meira né minna en þrjár Michelin stjörnur.
Nóttin kostar frá hundrað þúsund íslenskum krónum.

 

Hotel Pavillon de la Reine
Herbergin eru lítil, lyftan þröng og herbergislyklarnir eru festir við stóra gamaldags lyklakippu. Þrátt fyrir það heldur hótelið sínum sess meðal virðulegustu gististaða borgarinnar. Skortur á góðum matsölustöðum og erlendum sjónvarpsrásum veldur eigendunum því engu hugarangri. Starfsfólkið er einnig þekkt fyrir að vera afskiptalaust í þeim fáum tilfellum sem það verður á vegi gestanna. Þetta áhugaleysi eigendanna við að eltast við tíðarandann hittir í mark hjá fastagestunum. En meðal þeirra nafntoguðustu eru meðlimir hljómsveitarinnar Radiohead og Patti Smith.
Fyrir eina nótt á hótelinu þarf að greiða að lágmarki 380 evrur, sem jafngildir 63 þúsund íslenskum krónum.

 

Four Seasons George V
Hinir síungu Rollingar kalla hótelið „G5“ sín á milli en það hefur verið bækistöð þeirra í París á fjölmörgum tónleikaferðalögum þeirra um Frakkland. Minni spámenn eins og U2 og Madonna hafa líka lagt sig þar. Á hótelinu er veitingastaðurinn Le Cinq sem er með tvær Michelin stjörnur.
Það kostar rúmar hundrað þúsund íslenskar að gista á Georgi fimmta.

FLEIRI HÓTEL FYRIR ROKKARA Í PARÍS