Verður hæsta hótel í heimi

Lofthræddir ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir bóka herbergi á nýjasta hótelinu í Hong Kong. Hótelið verður það hæsta í heimi þegar það verður opnað í lok árs.

Útsýnið úr herberginu er eitt af því sem skiptir hótelgesti mestu máli. Þeir sem bóka sig inn á Ritz-Carlton hótelið í Hong Kong þurfa hins vegar ekki að velkjast í vafa um að sýn þeirra yfir borgina verður framúrskarandi út um herbergisgluggann. Það situr því enginn uppi með svarta pétur og glugga sem snýr út í húsasund eða að háum múrvegg.

Fyrsta hæð hótelsins er á 102. hæð í nýjum 490 metra háum skýjakljúf við Viktoríu höfnina og Hong Kong eyju. Það verða rúmlega þrjú hundruð herbergi á hótelinu ásamt sex veitingastöðum sem hver um sig sækir innblástur frá mismunandi löndum. Það verður einnig glæsilega testofa á Ritz-Carlton enda er tedrykkja í hávegum höfð á þessu svæði. Líkamsræktaraðstaðan er svo á 118. hæð sem er efsta hæð hótelsins sjálfs.

Ritz-Carlton hótelin eru þekkt fyrir lúxus og aðbúnaðurinn verður því fyrsta flokks. Gera má ráð fyrir að það kosti nokkra tugi íslenskra króna að gista á hótelinu.

Á efstu hæð byggingarinnar verður bar þar sem hótelgestir og aðrir sem leið eiga hjá geta notið útsýnisins. 

NÝTT EFNI: Þar sem rokkstjörnurnar gista í París
TENGT EFNI: Dýrustu hótelherbergi í heimi

Mynd: Ritz-Carlton