Vilja ekki hálfnakta túrista

Léttklæddir ferðamenn hafa löngum verið þyrnir í augum íbúa Barcelona. Stuttbuxur og bikiní eiga heima á ströndinni en ekki inn í borginni að mati heimamanna.

Túristar í Barcelona þekkja ekki eða hunsa þær óskrifuðu reglur sem gilda í borginni um klæðaburð. Það þykir nefnilega ekki við hæfi að rölta um bæinn í baðfötum líkt og margir ferðamenn gera. Í huga Barcelonabúa er þetta líka spurning um hreinlæti því enginn hefur áhuga á að fara inn í strætó með fáklæddu fólki þegar heitt er í veðri.

Þetta taktleysi ferðamanna er litið svo alvarlegum augum að meðal borgarfulltrúa var sú hugmynd rædd að sekta þá sem ganga um götur borgarinnar í strandklæðnaði. Tillagan var felld. Þess í stað verður hrundið af stað herferð þar sem ferðamenn eru beðnir um að klæða sig líkt og þeir myndu gera í sinni heimaborg.

Ferðamálaráði borgarinnar er líka umhugað um að vinda ofan af þessari þróun af ótta við að Barcelona verði stimpluð sem strandbær í framtíðinni samkvæmt frétt T-online.

Þeir sem eru á leið til Barcelona í sumar og vilja falla í kramið ættu því frekar að pakka niður hörjakkafötum en stuttbuxum í hermannalitum.

TENGT EFNI: Vegvísir-Barcelona og Ódýrir veitingastaðir í Barcelona