Brooklyn-brúin fær andlitslyftingu

Endurbætur á einu af kennileitum New York hófust í síðustu viku. Ferðamenn geta þó áfram gengið yfir brúnna og virt fyrir sér útsýnið yfir borgina.

Brooklyn-brúin, sem tengir saman Manhattan og Brooklyn, hefur lengi verið aðdráttarafl fyrir túrista í New York. Uppi á henni liggur nefnilega gangbraut og þaðan er útsýnið til háhýsanna á Manhattan mjög gott og líka yfir öllu látlausari byggðina í Brooklyn. Þúsundir manna ganga yfir brúnna á hverjum degi og hundrað og tuttugu þúsund bílar keyra þar yfir samkvæmt frétt USA Today.

Það eru 127 ár síðan þetta mikla mannvirki var tekið í notkun og það er farið að láta á sjá. Því hafa borgaryfirvöld og ríkisstjórn Bandaríkjanna sameinast um að ráðast í miklar endurbætur á brúnni. Verkið mun taka fjögur ár og kosta sem samsvarar 65 milljörðum íslenskra króna. Verður brúin til að mynda máluð hátt og lágt í þessum sama sandlit og hún hefur verið í. Akgreinarnar upp á hana verða líka tvöfaldaðar.

TENGDAR GREINAR: Einföld gisting í flottum umbúðum og New York er öruggasta stórborgin
NÝJAR GREINAR: Ný baðströnd í Kaupmannahöfn og Kofasæla á Jótlandi