Djassgeggjun í Danmörku

Það dugar ekkert minna en tíu daga tónlistarhátíð til að svala djassþorsta Dana.

Kaupmannahöfn hefur lengi verið eitt af höfuðvígum djassins í Evrópu. Langflestar af skærustu stjörnum greinarinnar hafa troðið þar upp og sumar þeirra hafa meira að segja búið í borginni í lengri eða skemmri tíma. Áhuginn á djassi er því rótgróinn í Danmörku líkt og í nágrannríkjunum enda eru Skandinavar sennilega einhverjir allra mestu djassgeggjarar sem fyrirfinnast.

Þann annan júlí hefst hin árlega Copenhagen Jazz Festival og stendur hún yfir í tíu daga. Meðal stærstu nafna hátíðarinnar í ár eru Herbie Hancock, Ceatano Veloso og Diana Krall. Þetta er í þrítugasta og fyrsta skipti sem Copenhagen Jazz Festival fer fram.

Á hverjum degi verða haldnir tugir tónleika um allan bæ, jafnt úti sem inni. Tónleikasalir og klúbbar borgarinnar eru þannig fráteknir fyrir djassista í júlí og á torgum og í almenningsgörðum verður líka daglega efnt til tónleika þar sem aðgangur er ókeypis. Ferðalangar geta því hlustað á lifandi músík á meðan þeir snæða hádegismatinn við Højbro Plads, Kultorvet, í Kongens Have og víðar.

Öllum tegundum af djassi eru gerð skil á þessari hátíð þannig að allir þeir sem hafa snefil af áhuga á þessari tegund tónlistar eru vel í sveit settir í Kaupmannahöfn í byrjun næsta mánaðar. Dagskrá Copenhagen Jazz Festival er að finna hér.

TENGDAR GREINAR: Þar sem Ellington og Armstrong gistu í París
NÝJAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði og Ódýr hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: Wonderful Copenhagen

Share |