Góðar nektarstrendur við Miðjarðarhaf

Sumum þykir fátt yndislegra en að svamla allsber í volgum sjó, leggjast svo á ströndina og leyfa sólinni að þerra á sér hvern krók og kima.

Það getur samt reynst þrautinni þyngri að finna strendur þar sem leyfilegt er að stunda sólböð án baðfata. Hér er hins vegar listi yfir þær nektarstrendur sem hið danska blað Politiken telur vera þær bestu við Miðjarðarhafið. Á þeim öllum getur fólk áhyggjulaust sólað sig berrassað og jafnað út sundbuxna- og bikiniför.

Frakkland

Vendays-Montalivet – Norður frá Bordeaux er þessi fyrsti opinberi baðstaður nektarsinna í heiminum. Það er því ekki að undra að alþjóðleg samtök þessa hóps hafi verið stofnuð þar árið 1953. Á tjaldsvæðinu er hægt að leigja kofa með útsýni út á Atlantshafið.

Cad d´Adge – Þessi afgirti smábær í nágrenni Montpellier á suðurströnd Frakklands er einn vinsælasti áfangastaður kviknakinna karla og kvenna. Hér hafa þau allt plássið fyrir sig en heimamenn eru vanir að borða kvöldmatinn í fötum.

Grikkland

Banana Beach – Á eyjunni Skiathos eru tvær strendur kenndar við bjúgaldin, Big Banana Beach og Small Banana Beach. Áður fyrr héldu strippalingarnir til á þeirri fyrrnefndu en nú hafa þeir fært sig yfir á þá minni. Þar una samkynhneiðgðir og gagnkynhneigðir, fjölskyldur og einhleypir sáttir við sitt svo lengi sem engin klæði sjást á svæðinu.

Paradise Beach – Á partíeyjunni Mykanos er hægt að baða sig nakinn á paradísarströndinni sem er fjóra og hálfan kílómetra frá bænum.

Ítalía

Capocotta – Það eru fleiri en bara sumarhúsagestir Berlusconi sem þykir gott að ganga um naktir í ítalskri nátturu. Í meira en þrjátíu ár hefur þessi strönd, suður af Róm, laðað til sín þennan hóp fólks. Um aldamótin ákváðu yfirvöld að afmarka þann hluta strandarinnar þar sem sólböð án klæða eru leyfð.

Lido de Alberoni – Ekki svo langt frá túristaörtröðinni í miðborg Feneyja liggur þessi nektranýlenda við Lido di Venedig ströndina. Þangað kemst fólk með því að taka bát úr miðbænum og svo strætó.

NÆSTA SÍÐA: NEKTARSTRENDUR Í KRÓATÍU OG SPÁNI