Hótel án starfsfólks

Gestirnir á nýjasta hótelinu í Kaupmannahöfn sjá sjálfir um að tékka sig inn enda er þar ekkert starfsfólk. Á móti kemur að gistingin er ódýr.

Það er leit að jafn ódýru hóteli í Kaupmannahöfn eins og Omena hótelinu sem opnaði skammt frá aðallestarstöðinni, Hovedbanegården, á þriðjudaginn. Nóttin kostar frá 299 dönskum krónum sem jafngildir rúmum sex þúsund íslenskum. Ástæðan fyrir því að verðið er svona lágt er sú að á hótelinu er eiginlega ekki neitt starfsfólk fyrir utan hreingerningafólkið. Það er ekkert lobbí, enginn veitingastaður og auðvitað enginn dyravörður. Þess í stað slá gestirnir inn fimm stafa kóða þegar þeir vilja fara inn og út. Kóðann fá þeir sendan þegar gistingin er pöntuð og hann gildir jafnt að útidyrunum sem og herberginu sjálfu.

Það eru fjögur rúm á öllum herbergjunum á Omena og gistingin kostar það sama hvort sem einn sefur þar eða fjórir. Á herbergjunum er líka bað, stórt sjónvarp, örbylgjuofn, kæliskápur og frítt internetsamband. Ferðavanar fjölskyldur sem þurfa ekki á leiðsögn starfsmanna í lobbíi að halda geta því sparað sér umtalsverðan pening í gistingu með því að velja þennan nýja kost.  

Omena hótelið er hluti af finnskri hótelkeðju sem hingað til hefur haldið sig í heimalandinu en hefur nú stigið fyrsta útrásarskrefið. Áformað er að opna fleiri hóteli í Skandinavíu á næstunni.

TENGDAR GREINAR: Ódýr hótel í Kaupmannahöfn og Vegvísir Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR:
Kofasæla á Jótlandi og Brooklyn-brúin fær andlitslyftingu

Mynd: Omena Hotel