Hótelherbergjum fjölgaði um 432.000

Það voru teknar skóflustungur að mörgum nýjum hótelum árin fyrir krísuna. Þau opna nú hvert af öðru og nálgast fjöldi hótelherbergja á heimsvísu tuttugu milljónir.

Það ríkti mikil bjartsýni í ferðamannageiranum líkt og annars staðar fyrir nokkrum árum síðan. Fjárfestar kepptust um að leggja peninga í nýja gististaði og sérstaklega í Miðausturlöndum og S-Ameríku. Framboð á gistirými jókst hlutfallslega mest á þessum tveimur svæðum á síðasta ári eða um nærri fimm prósent. Vöxturinn í N-Ameríku og Evrópu var hins vegar milli tvö og þrjú prósent samkvæmt tölum frá MKG Hospitality. Fjöldi ferðamanna á heimsvísu drógst hins vegar saman um fjögur prósent á síðasta ári. Vegna þessa mismunar verður að teljast líklegt að hótelstjórar víða um heim haldi áfram að bjóða gistinguna með góðum afslætti líkt og þeir hafa gert síðustu misseri.

Samkvæmt frétt Standby.dk er InterContinental stærsta hótelfyrirtæki í heimi en innan keðjunnar eru rúmlega sex hundruð og fjörtíu þúsund herbergi. Wyndham og Hilton koma þar á eftir.

TENGDAR GREINAR: Hótel án starfsfólks og Ódýr hótel í Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Lufthansa stærst í Evrópu og Kofasæla á Jótlandi

Mynd: Wikicommons