Hróarskelduhátíðin opnar sundlaug

Aðeins þeir sem puða á þrekhjóli fá að hoppa út í splunkunýja sundlaug á Hróarskelduhátíðinni í ár. 

Bakvið áhorfendastæðin við Orange senuna á Hróarskeldu er verið að koma fyrir tuttugu og fimm metra langri sundlaug sem verður í laginu eins og vörumerki Tuborg bjórframleiðandans. Hreinsibúnaður laugarinnar er knúinn áfram með rafmagni sem baðgestirnir sjálfir búa til með því að hjóla á þrekhjóli sem tengt er við straumgjafa hreinsitækjanna. Þeir sem leggja puðið á sig fá aðgang að vatninu og búningsaðstöðunni. Haft er eftir talskonu hátíðarinnar á netsíðu Politiken að þessi nýjung sé hugsuð fyrir þá sem vilja slaka á og hafa það huggulegt. Gestir sem ekki hafa pakkað sundfötum og handklæði geta keypt það sem upp á vantar á svæðinu. 

Líkt og síðustu ár verður einnig hægt að stinga sér til sunds sig í vatni einu við tjaldstæðin. Þar sér nátturan sjálf um hreinsunina.

Hátíðin fer fram fyrsta til fjórða júlí.

NÝJAR GREINAR: Hótel án starfsfólks og Hótelum fjölgaði um 432.000

Mynd: Jens Dige/Rockphoto/Roskilde festival