Í hvaða borg er best að búa?

Er betra að búa í Berlín en Barcelona og hvað með Honolulu og Hamborg? 

Þar sem vel fer um heimamenn ættu ferðamenn að geta notið sín líka. Og ef marka má lista tímaritsins Monocle yfir þær tuttugu og fimm borgir í heiminum þar sem best er að búa þá er heimavöllur hins ógurlega bjórfestivals í október staðurinn til að heimsækja við fyrsta tækifæri. Því München er að mati Monocle sú borg þar sem best fer um íbúana. Kaupmannahöfn er í öðru sæti og Zürich í Sviss fær bronsið. 

Borgirnar eru meðal annars dæmdar út frá gæðum almenningssamgangna og heilbrigðisþjónustunnar og einnig er mikilvægt að nóg sé af grænum svæðum í borgarbyggðinni. Flóra veitingastaða og verslana skal vera fjölbreytt og glæpatíðnin lág. Fólk á líka að geta búið sómasamlega án þess að vera sterkefnað og það þykir mikill kostur ef skrifræðið er lítið og aðkomufólk geti auðveldlega komið sér inn í kerfið. Ekki skemmir fyrir að íbúarnir séu myndarlegir og vel til hafðir en því skal haldið til haga að Monocle hefur soldinn snobb stimpil á sér.

Höfuðstaður Bæjaralands, München, er sú borg sem best uppfyllir þessi skilyrði og til marks um það hversu heimamenn eru hamingjusamir þá er fæðingartíðnin í borginni óvenju há samkvæmt grein Monocle. Okkar gamla höfuðborg, Kaupmannahöfn, er svo í öðru sæti og þykir hjólamenningin þar til mikillar fyrirmyndar. 

Athygli vekur að allar höfuðborgir Norðurlanda komast á listann nema Reykjavik. Þrjár borgir í Þýskalandi og Japan komast þar að á meðan Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Spánn eiga tvo fulltrúa.

Svona lítur listinn út yfir 25 bestu borgirnar að búa í samkvæmt Monocle:

 1. München
 2. Kaupmannahöfn
 3. Zürich
 4. Tókýó
 5. Helsinki
 6. Stokkhólmur
 7. París
 8. Vínarborg
 9. Melbourne
 10. Madrid
 11. Berlín
 12. Sydney
 13. Honolulu
 14. Fukuoka
 15. Genf
 16. Vancouver
 17. Barcelona
 18. Osló
 19. Montreal
 20. Auckland
 21. Singapúr
 22. Portland
 23. Kyoto
 24. Hamborg
 25. Lissabon

TENGDAR GREINAR: Fallegustu baðstrendur í EvrópuFlottustu flugstöðvarnar
NÝJAR GREINAR: Djassgeggjun í KaupmannahöfnSpá methita á Spáni

Mynd: Ferðamálaráð Þýskalands