Kreditkortið í hættu á hótelinu

Það eru ekki bara vasaþjófar sem ræna ferðamenn heldur líka tölvuþrjótar sem stela kreditkortaupplýsingum frá gististöðum.

Það hefur færst mjög í vöxt að hótel verði fyrir barðinu á tölvuþrjótum. Þau liggja oft á miklu magni af verðmætum kreditkortaupplýsingum og yfir þær vilja bófarnir komast samkvæmt skýrslu bandaríska öryggisfyrirtækisins Trustwave. Þessi illa fengnu kreditkortanúmer eru síðan notuð til að kaupa vörur og þjónustu á netinu.

Íslenskir korthafar hafa ekki komið illa út úr þessari þróun samkvæmt upplýsingum frá Valitor. Þar á bæ hafa menn ekki orðið varir við sérstaka aukningu í stuldi á kortaupplýsingum frá hótel og veitingastöðum og tilfelli sem þessi eru ekki algeng. Þegar brotist er inn í tölvukerfi söluaðila og kortnúmerum stolið og misnotuð, þá er korthafinn tryggður og ber engan skaða.

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar segir í samtali við Túrista að öll fyrirtæki sem taka við kortanúmerum, þar á meðal hótel og veitingastaðir, þurfi að vera með búnað sem stenst öryggiskröfur alþjóðlegra kortafyrirtækja sem kallast PCI-DSS. Jóhann bendir fólki á að gefa aldrei upp kreditkortaupplýsingar í tölvupósti eða á óvörðum heimasíðum því stærsti hluti af kortanúmerastuldi á sér stað á netinu.

Það er því gott ráð fyrir ferðalanga að fara vel yfir kortayfirlitið sitt eftir að komið er heim frá útlöndum til að ganga úr skugga um að kortanúmerið hafi ekki verið misnotað.

NÝJAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði og Hótel án starfsfólks