Lappað upp á Kanarí

Ferðamönnum á Kanaríeyjum fækkaði verulega á síðasta ári. Fjórði hver eyjaskeggi er nú atvinnulaus. Yfirvöld ætla að setja mikið fé í endurbætur á hótelum eyjanna á næstunni.

Kanaríeyjar hafa lengi verið einn vinsælasti ferðamannastaður Spánar. Á síðasta ári fækkaði þó ferðamönnum á eyjunum um rúm tólf prósent. Þessar dvínandi vinsældir hafa leikið efnahag svæðisins grátt og nærri fimm þúsund fyrirtæki hafa þurft að hætta starfssemi síðustu misseri.  Atvinnuleysið mælist á milli 25 og 30 prósent. 

Til að forða svæðinu frá enn meiri þrengingum hafa spænsk stjórnvöld ákveðið að setja 122 milljónir evra í endurbætur á mannvirkjum eyjanna. Þar á meðal slitin hótel í vinsælustu ferðamannabæjunum. Lendingagjöld verða einnig lækkuð í von um að fleiri flugfélög sjái sér hag í því að fljúga til eyjanna og hrundið verður af stað markaðsátaki í þeim tilgangi að lokka til eyjanna eldri borgara frá meginlandi Evrópu.

Haft er eftir ferðamálaráðherra Kanarí í hinu norska Aftenposten að blómaskeið ferðamannaþjónustunnar á eyjunum sé sennilega liðið. En þegar best lét heimsóttu um tólf milljónir manna svæðið árlega. Áætlanir gera þó ráð fyrir allt að átta prósenta aukningu í komu ferðamanna í ár frá því síðasta.

TENGDAR GREINAR: Hótel fyrir samkynhneigða á Kanarí
NÝJAR GREINAR: Djassgeggjun í Danmörku og Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði