Lufthansa stærst í Evrópu

Farþegum evrópsku flugfélaganna fjölgaði jafnt og þétt fyrstu þrjá mánuði ársins. En svo setti gosið í Eyjafjallajökli strik í reikninginn.

Þegar fyrsti þriðjungur ársins er gerður upp kemur í ljós að farþegum evrópsku flugfélaganna fækkaði um tæplega þrjá af hundraði. Þetta kemur fram í tölum frá samtökum fyrirtækjanna, AEA, en lággjaldaflugfélög álfunnar eru ekki í þessum félagsskap. Fram að gosi höfðu flest félögin sýnt vöxt í farþegatölum samanborið við síðasta ár. Í apríl varð samdrátturinn hins vegar sextán prósent að meðaltali.

Hið þýska Lufthansa er það fyrirtæki í Evrópu sem flaug með flesta á fyrstu fjórum mánuðum ársins eða 15,6 milljónir. Air France kemur þar á eftir með tæplega fjórtan milljónir og British Airways, sem hefur orðið illa úti vegna verkfalla starfsfólks, er í þriðja sæti en 8,6 milljónir manna keyptu sér far með þeim. Farþegar Icelandair voru þrjúhundruð og fimm þúsund á sama tíma og fjölgaði um tíu af hundraði frá árinu 2009. Íslenska félagið er eitt fárra fyrirtækja á lista AEA sem tókst að fjölga fólki um borð í flugvélunum sínum á fyrstu fjóru mánuðunum. Mestur er hins vegar vöxturinn hjá hinu rúmenska Tarom þar sem farþegum fjölgaði um allt að þriðjung frá síðasta ári. Þess ber þó að geta að sætanýting hjá Rúmenunum var ekki sérstaklega góð samanborið við marga aðra.

TENGDAR GREINAR: Vinsælt að bóka flugið blint og Flugstöðin í Singapore sú besta
NÝJAR GREINAR: Hótel án starfsfólks og Ný baðströnd í Kaupmannahöfn

Mynd: úr myndasafni Lufthansa