Ný baðströnd í Kaupmannahöfn

Í brakandi blíðu geta Kaupmannahafnarbúar og gestir þeirra kælt sig í svölum og hreinum sjó á nokkrum stöðum í borginni. Nýjasta ströndin verður opnuð síðar í mánuðinum.

Þeir sem vilja kæla sig niður þegar danska sumarsólin er í essinu sínu þurfa ekki að leita langt yfir skammt. Sérstaklega ef þeir eru staddir í suðurhluta borgarinnar þar sem Amager ströndin er og hafnarlaugarnar tvær við Íslandsbryggju og Fisketorvet. Í norðurhlutanum hafa íbúarnir sótt baðstrendur nágrannasveitarfélaganna við Bellevue og Charlottenlund en þann tuttugasta júní opnar ný manngerð strönd við bátahöfnina í Svanemøllen. Sú mun vera fjögur þúsund fermetrar að stærð og út í sjóinn gengur 130 metra löng göngubrú. Vatnið er mjög grunnt við Svanemøllen ströndina sem gerir hana sérstaklega hentuga fyrir börn. Vatnið er hreinsað með útfjólubláum geislum og fólk á því ekki að þurfa að óttast bakteríur. Baðverðir verða á vakt við ströndina á daginn og passa upp á að engin fari sér á voða.

Gufubað fyrir köldu dagana
Það finnast Danir, líkt og Íslendingar, sem þykir gott að skella sér út í kaldan sjó. Þessi hópur fólks mun líklega taka nýju ströndinni opnum örmum því við hana verður gufubaðsaðstaða svo þessi hreystimenni geti náð eðlilegum líkamshita sem fyrst eftir að hafa tekið sundsprett í svölu Eyrarsundinu.

TENGDAR GREINAR: Borg og baðströnd í einni ferð og Sjá og gera í Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Ferðamenn sniðganga Grikkland

Mynd: Wonderful Copenhagen / Christian Alsing

Share |