Öllum boðið í brúðkaup í Stokkhólmi

Á laugardaginn dregur einkaþjálfarinn Daníel Westling hring á fingur Viktoríu krónprinsessu. Yfir því kætast Svíar þessa dagana og efna til mikillar veislu.

Glaumur og gleði í tilefni af brúðkaupi sænsku prinsessunnar
Konungleg brúðkaup þykja mikil tíðindi meðal hinna konungssinnuðu frændþjóða okkar í Skandinavíu. Þannig flyktist fólkið til Kaupmannahafnar þegar Friðrik krónprins gekk að eiga hina áströlsku Mary fyrir sex árum síðan. Nú er röðin komin að Stokkhólmi að hýsa konunglega brúðkaupsveislu. Á laugardaginn ganga nefnilega þau Daníel og Viktoría upp að altarinu í Storkyrkan og játa hvort öðru ást sína. Brúðurin er ríkisarfi og mun því að föður sínum gengnum setjast í hásætið í konungshöllinni við Gamla Stan. 

Frá því í síðustu viku hefur staðið yfir skipulögð skemmtidagskrá í sænska höfuðstaðnum og aðgangur að flestum atburðunum er ókeypis.  Það er því tilvalið fyrir þá sem eiga erindi til Stokkhólms um helgina að kynna sér dagskrárliðina á sérstakri heimasíðu ferðamálaráðs borgarinnar. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi enda er prógrammið fjölbreytt.

Hátíðarhöldin ná auðvitað hámarki á laugardag og þá má búast við því að það verði víðar kátt en í höllinni.

NÝJAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði
TENGDAR GREINAR: Höll danska krónprinsins öllum opin

Mynd: Jens Assur / Love Stockholm