Spá methita á Spáni

Þeir sem eru á leið til Spánar ættu að búa sig undir steikjandi hita. Spáin gerir ráð fyrir heitasta sumrinu þar í landi frá aldarmótum.

Það má gera ráð fyrir því að þúsundir Íslendinga séu á leiðinni til Spánar í sumar því landið hefur lengi notið mikillar hylli meðal íslenskra ferðamanna. Hið heita loftslag er ein helsta ástæðan fyrir vinsældunum en hitinn getur þó verið kæfandi á köflum. Í ár er hætt við að hitastigið verði við og við ansi hátt því spænska veðurstofan reiknar með að hitinn í júlí og ágúst verði að meðaltali þremur gráðum hærri en í hefðbundnu ári. Það þýðir að meðalhitinn verður á bilinu 25 til 30 gráður samkvæmt frétt netútgáfu Aftenposten.

Góð sólarvörn, sólhattur og svalt drykkjarvatn er því nauðsynlegt að hafa við höndina við þessar aðstæður. Það er líka gott ráð að fylgja fordæmi heimamanna og leggja sig yfir miðjan daginn eða halda sig í skugganum.

Ef spár spænskra veðurfræðinga ganga eftir má gera ráð fyrir því að önnur lönd við Miðjarðarhafið muni líka fá óvenju stórann skammt af sól á næstunni.

TENGDAR GREINAR: Borg og baðströnd í einni ferðVilja ekki hálfnakta túristaFallegust baðstrendur Evrópu
NÝJAR GREINAR: Djassgeggjun í DanmörkuLappað upp á Kanarí Kreditkortið í hættu á hótelinu