Samfélagsmiðlar

Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði

Þau eru óvenjuleg hvert á sinn hátt þessi þrjú gistihús í höfuðborg Bretlands þar sem dvölin kostar ekki meira en á andlausu hóteli.

Hótelherbergi standa ekki alltaf undir væntingum. Allra síst í London. Oft er þar þröngt til veggja og það heyrir til undantekninga ef glugginn snýr ekki í átt að götuporti. Aðdáun Breta á gólfteppum getur líka verið þreytandi.

Það er þó hægt að finna fjöldan allan af huggulegum hótelum í heimsborginni sem ekki eru dýr. Hér eru þrjú sem falla í þann flokk. Þau eiga það líka sammerkt að mikill metnaður hefur verið lagður í útlitið, þjónustuna og aðbúnaðinn þó verðið sé í lægri kantinum.

Shoreditch Rooms

Hótelið er hluti af einkaklúbbi sem fólk úr hinum skapandi stéttum þykir fínt að hampa skirteinum frá. Í húsinu eru barir, veitingastaðir, veislusalir, heilsurækt og meira að segja keilubrautir. Á þakinu er upphituð sundlaug. Gestir hótelsins geta nýtt sér þessa aðstöðu og fengið innsýn inn í heim bresks einkaklúbbs. En hótelið var þar til í maí eingöngu fyrir meðlimi. Herbergin eru innréttuð í frekar látlausum og björtum stíl og maðurinn á bakvið útlitið, Tom Dixon, er ein af skærustu stjörnunum í breskum hönnunarheimi um þessar mundir.

Herbergin eru í þremur stærðarflokkum og þau minnstu og ódýrustu kosta frá 85 pundum á meðan þau stærstu kosta 145 pund. Þeim sem líkar lífið vel á Shoreditch og sjá fram á margar ferðir til London ættu að gerast meðlimir því þá fást betri kjör á gistingunni.

Shoreditch Rooms er á mörkum austurhluta borgarinnar og City fjármálahverfsins. Sjá á korti.

Dean Street Townhouse

Það eru engin tvö herbergi eins á þessu vinsæla hóteli í Soho hverfinu og hér hefur fólk dúllað sér við að velja spegla, púða og gluggatjöld í mismundani litum og útgáfum. Verðið kemur því á óvart því staðsetningin og aðstaðan er virkilega góð. Soho er reyndar frægt partíhverfi og hávaðinn af götunni gæti pirrað einhverja en þá þarf bara að minna sig á að herbergin eru svo sannarlega í ódýrari kantinum. Kosta frá 120 pundum sem er álíka mikið og gistingin kostar á úr sér gengnu keðjuhóteli í nágrenninu.

Á veitingastað hótelsins er aðeins unnið með breskt og írskt hráefni og réttirnir á matseðlinum eru árstíðarbundnir. 

Það virðist vera samdóma álit ferðapressunnar að það hafi tekist einkar vel að skapa heimilislega stemmningu á Dean Street Townhouse. Bæði á hótelinu og veitingastaðnum. Líkt og á Shoreditch Rooms er hægt að gerast meðlimur að hótelinu og fá þannig lægra verð.

Dean Street Townhouse er við Dean Street 69-71. Sjá á korti.

40 winks

Hótel sem aðeins hefur tvö herbergi, þar af annað eins manna, stendur varla undir nafni. En látum skilgreiningar liggja á milli hluta. 40 winks staðsett við mikla umferðargötu í austurhlutanum, götu sem hljómsveitin Pulp samdi lag um og var notað í myndinni Trainspotting. Þeir sem kannst við þá mynd vilja ólíklega feta í fótspor söguhetjanna og það gera þeir svo sannarlega ekki með því að bóka sig inn á 40 winks. Hótelið ber þess merki að þar hefur listamaður fengið að ráða ferðinni og andi Ingvar Kamprad er hvergi nærri. Innanstokksmunirnir minna meira á leikmuni en húsgögn og sumir hlutar hússins eru hlýlegir á meðan aðrir eru drungalegir. 

Á kvöldin er stundum efnt til kvöldvöku og hafa frægir gestir þá kíkt í heimsókn til að hafa ofan af fyrir gestunum. Leikkonana Kristin Scott Thomas sá til dæmis um kvöldlesturinn í setustofunni ekki fyrir svo löngu síðan. 

Fyrir þessa óvenjulegu gistiaðstöðu er greitt nokkuð hóflegt gjald. Nítíu pund fyrir eins manns herbergi og 130 fyrir tveggja manna herbergi.

40 winks er við Miles End 109. Sjá á korti

TENGDAR GREINAR: Einföld gisting í flottum umbúðum – New York og Groddalegur íburður í London
NÝJAR GREINAR: Hróskelduhátíðin opnar sundlaug og Hótel án starfsfólks

Myndir: Frá hótelunum sjálfum.

Nýtt efni

Því var fagnað í gær að undirrituð hefði verið viljayfirlýsingu um að Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum ætluðu að byggja og reka fjögurra stjörnu hótel við Skógarböðin í Eyjafirði gegnt Akureyri. Á væntanlegu baðhóteli verða 120 herbergi. Sjallinn - MYND: Facebook-síða Sjallans Íslandshótel hafa líka haft áform um að reisa hótel í miðbæ Akureyrar, þar …

Kínverski rafbílaframleiðandinn BYD lækkaði verð á bílum sínum á íslenska markaðnum í febrúar s.l. í kjölfar þess að skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður. Skattafrádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna en nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn. Með lægra verði frá Kína gat Vatt, sem er með …

Langvarandi deilur írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair við ítölsk yfirvöld halda áfram. Nú hafa samkeppnisyfirvöld á Ítalíu (AGCM) fyrirskipað Ryanair að aflétta hindrunum á því að ferðaskrifstofur selji flugmiða í ferðir félagsins. AGCM hóf í september síðastliðinn rannsókn á meintri misnotkun félagsins á markaðsráðandi stöðu. Ryanair er umsvifamesta flugfélagið á ítalska ferðamarkaðnum, með um 34 prósenta hlutdeild, …

Play gaf það út í síðasta mánuði að ónefndur hópur meðal stærstu hluthafa flugfélagsins auk annarra fjárfesta hefði skuldbundið sig til að leggja félaginu til 4,5 milljarða króna. Tveir af þeim fjórum lífeyrissjóðum sem eru á lista yfir stærstu hluthafanna sögðust ætla að taka þátt. Rökin fyrir forstjóraskiptunum um síðustu mánaðamót svo þau að Einar …

Lofthelgin yfir Ísrael, Líbanon, Jórdaníu og Írak var lokað á laugardagskvöld eða flug þar um háð miklum takmörkunum. Þetta hafði auðvitað mest áhrif á flug innan svæðisins en líka á yfirflug véla á milli heimsálfa. Í gær var tímabundnum takmörkunum aflétt þegar árásum Írana á skotmörk í Ísrael linnti.  Flugöryggisstofnun Evrópu (The European Union Aviation …

Stjórnendur flugfélagsins Westjet sóttu um lendingartíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumarvertíðina 2020 og þá var ætlunin að fljúga hingað fjórum sinnum í viku frá Toronto, fjölmennustu borg Kanada. Sala á flugmiðum fór þó aldrei í loftið og áður Covid-faraldurinn hófst í ársbyrjun 2020 hafði Westjet gefið út að ekkert yrði að Íslandsfluginu. Stuttu síðar lokuðust landamæri …

Umhverfisstofnun er farin að fikra sig áfram með álagsstýringu á ferðamannastöðum. „Við erum að setja af stað pöntunarkerfi í Landmannalaugum i sumar,“ sagði Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri sviðs náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, á ársfundi náttúruverndarnefnda nýverið. „Þetta er mjög einföld aðferð,“ sagði Inga Dóra: Ef þú kemur akandi þarftu að bóka stæði og borga fyrir það. …

Stjórnendur rafbílaframleiðandans Tesla leita nú leiða til að draga úr kostnaði og horfa þeir til þess að segja upp 14 þúsund starfsmönnum eða um 10 prósent af vinnuaflinu. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forstjóri félagsins, Elon Musk, sendi til starfsfólks samkvæmt frétt sem fagritið Electrek birti í morgun. „Ég hata ekkert meira en þetta …