5 bestu Spánarstrendurnar

Skríbentar ferðablaðsins The Sunday Times Travel birtu nýlega lista sinn yfir þær fimm strendurnar á Spáni sem þeim þykir skara framúr.

Hér á landi er áratugahefð fyrir sólarlandarferðum til Spánar og því fjöldi Íslendinga sem hefur marga fjöruna sopið í þessu vinsæla ferðamannalandi. Það eru því líklegt að einhverjir sakna sinna uppáhalds baðstranda á þessum lista The Times yfir bestu Spánarstrendurnar. En hvað með það, hér er listinn:

Cala Mondrago, Mallorca

Þeir sem leið eiga framhjá þessari strönd í suðausturhluta sólareyjunnar víðfrægu geta ólíklega staðist freistinguna að stinga fæti niður í hvítan sandinn og kæla sig í tærum sjónum. Fyrri ströndin kallast Fonts de n´Alis og hún nýtur mestra vinsælda. Þeir sem kjósa heldur fámennið geta gengið í átt að S´Amarador ströndinni þar sem fáir eru á ferð, jafnvel í ágúst þegar Mallorca er stútfull af túristum.

La Barrossa, Cadiz

Landsins bestu strandverðir passa upp á að gestirnir fari sér ekki á voða í ölduganginum við þessa fjölskylduvænu fjöru á hinni vindasömu suðurströnd Pýreneaskaga. Það er nóg pláss fyrir þá sem vilja liggja og lesa í sólinni og líka hina sem komnir eru til að hlusta á teknó um miðjan dag því La Barrossa er átta kílómetrar að lengd. Ólíkir hópar þurfa því ekki að taka tillit til hvors annars.

 

Barceloneta, Barcelona

Barceloneta hverfið er í um það bil korters göngufjarlægð frá miðbæ Barcelona. Þar er að finna baðstrendur sem blaðamenn The Times telja óhikað vera meðal þeirra betri jafnvel þó það séu híbýli milljóna manna hinum megin við pálmatréin. Úrval góðra veitingastaða er auðvitað framúrskarandi á þessum slóðum enda eru veitingamenn í Barcelona þekktir fyrir að standa fyllilega undir kröfum sælkera.

TENGDAR GREINAR: Barcelona bragðast beturVegvísir fyrir Barcelona

 

La Concha, San Sebastian

Glysgjarnir Spánverjar spássera um strandgötuna í San Sebastian í baðfötum sem eru vel merkt heimsþekktum tískuvöruframleiðendum. Einu sinni á ári fyllist svo bærinn og La Concha ströndin af Hollywood stjörnum þegar hin árlega kvikmyndahátíð borgarinnar er haldin. Reyndar ættu sólböð að mæta afgangi hjá ferðafólki í San Sebastian enda er hún eitt höfuðvígi pintxosins, basknesku útgáfunnar af tapas. 

TENGDAR GREINAR: Smáréttasvall að hætti Baska

 

Cala D’Aiguafreda, Katalóníu

Strandarsandur getur verið pirrandi fyrirbæri sérstaklega ef engin sturta er við strandlengjuna. Við Cala D´Aiguafreda er hins vegar óþarfi að leita að sturtu því þar flatmagar fólk á klöppunum sem við liggja við sjóinn. Skógurinn allt í kring veitir gott skjól fyrir vindum sem er ekki endilega kostur því þá getur hitinn orðið ansi mikill. En svalur sjórinn er þá innan seilingar og samkvæmt The Times er hann tær eins og Bombay Saphire gin.

NÝJAR GREINAR: Hótel frá náttúrunnar hendi