Byggja stærsta hótel á Norðurlöndum

Tveir tuttugu og fjögurra hæða turnar sem halla í fimmtán gráður munu hýsa stærsta hótel Norðurlanda sem opnar í Kaupmannahöfn næsta sumar.

Ráðstefnuhöllin Bella Center í Ørestad hverfinu í Kaupmannahöfn er ekki mikið fyrir augað. Forsvarsmenn hennar vonast þó líklega til að Bella Sky hótelið, sem er sambyggt ráðstefnuhöllinni, muni verða eitt af kennileitum þessa hlutar Kaupmannahafnar. Reyndar er samkeppnin hörð því skammt þar frá er magnað tónlistarhús Danska ríkisútvarpsins og hinum megin við götuna er VM-Bjerget, íbúðarhús sem hlotið hefur virt alþjóðleg verðlaun fyrir frumlegheit og fegurð.

En aftur að hótelbyggingunni því hún samanstendur af tveimur háhýsum sem halla ýmist að eða frá hvoru öðru. Nemur hallinn fimmtán gráðum þar sem hann er mestur. Til samanburðar þá mun Skakki turninn í Písa halla um þrettán og hálfa gráðu. Efstu hæðir hótelturnanna eru svo tengdar saman með göngubrú.

Á þessu fjögurra stjörnu hóteli verða þrjátíu og tveir fundar- og ráðstefnusalir og 814 herbergi. Þar með verður Bella Sky stærsta hótelið á Norðurlöndum. Kostnaður við bygginguna er sem samsvarar rúmum þrjátíu milljörðum íslenskra króna. 

TENGDAR GREINAR: Nýir og ódýrir veitingastaðir í Kaupmannahöfn
TILBOÐ: 10% afsláttur á hótelgistingu í Kaupmannahöfn fyrir lesendur Túrista

Mynd: Bella Center