Ekkert hass fyrir ferðamenn

Hollenskum kaffihúsum sem selja kannabisefni verður bannað að afgreiða útlendinga ef Evrópudómstóllinn tekur undir álit aðallögmanns ESB.

Ferðamenn í hassvímu valda miklum vanda í Hollandi. Af þeim sökum hefur lengi verið um það rætt í landinu hvort banna eigi útlendingum að sækja hin sérstöku kaffihús þar sem má kaupa og neyta marijúana og hass. Yfirvöld í borginni Maastricht ákváðu að fara þá leið og í rökstuðningi fyrir banninu kemur fram að hassreykingar útlendinga valdi ringulreið í samfélaginu og séu gróðrarstía fyrir sölu á harðari efnum.

Einn kaffihúsaeigandi þar í borg virti hins vegar bannið að vettugi og greip lögreglan hann tvisvar sinnum glóðvolgan við að afgreiða útlenska kúnna. Kaffihúsið var því svipt starfsleyfinu. Í kjölfarið kærði vertinn málið og eftir nokkra ára bið er það komið á borð Evrópudómstólsins samkvæmt frétt Politiken í Danmörku.

Dómstóllinn leitar ávallt álits aðallögmanna ESB um þau mál sem fyrir réttinn koma og niðurstaða lögmannsins liggur nú fyrir. Hann telur að bæjaryfirvöld í Maastricht hafi verið í fullum rétti þegar þau settu bannið þar sem fíkniefni falli ekki undir lög Evrópusambandsins um frjálst flæði vara.  Þess vegna megi setja um þau sérstakar reglur.

Það kemur sennilega í ljós undir lok árs hvort dómstóllinn tekur undir þetta álit aðallögmannsins en þangað til geta ferðamenn keypt hass á hinum frægu „Coffeeshops“ um allt Holland nema í Maastricht.

NÝJAR GREINAR: Verða sér til skammar á lúxushótelumHuggulega höfuðborgin
TILBOÐ: 15% afsláttur á hóteli í Amsterdam

Mynd: Andrijbulba (Creative Commons)