Fríið bætir fjölskyldulífið

Þriðji hver Dani er sannfærður um að það hafi jákvæð áhrif á fjölskylduna að fara í frí saman.

Sumarfríið er ekki aðeins kærkomin hvíld frá vinnu og hversdagsleikanum heldur einnig gullið tækifæri til að treysta fjölskylduböndin. Samkvæmt nýrri könnun fríblaðsins 24timer í Danmörku er þriðji hver Dani á þeirri skoðun að stemningin í fjölskyldunni verði betri eftir frí en hún var fyrir. Tveir af hverjum þremur segja andrúmsloftið á heimilinu það sama fyrir og eftir frí. Blessunarlega er enginn á því að fjölskyldulífið versni eftir leyfið.

Tæplega áttatíu prósent aðspurða segir að fríin standi alla jafna undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerð. Aðeins fjögur prósent Dana koma oft skúffaðir heim úr fríinu.

Í 24timer er haft er eftir Margrethe Brun Hansen, sérfræðingi í málefnum fjölskyldna, að foreldrar verði að hafa það hugfast að fyrir börn skiptir engu máli hversu miklu er til kostað í fríinu. Mestu skiptir að þau eigi góðar stundir með foreldrum sínum. Þannig geti kvöldstund yfir Matador spili gefið þeim miklu meira en dagur í skemmtigarði. Einnig er mikilvægt að foreldrar lágmarki notkun á símum og tölvupósti og verji tímanum í að spjalla við börnin.

Einnig jákvæð áhrif á pör

En það er ekki bara sambandið við börnin sem batnar í fríinu því pör hafa líka gott af fríi. Þá gefst tími til að ræða önnur mál en þau sem helst ber á góma dags daglega. Annar sérfróður Dani um fjölskyldur segir í viðtali við 24timer að pör ættu að taka sér reglulega stutt frí til styrkja sambandið. Þannig geti sundferð eftir vinnu á þriðjudegi verið af hinu góða og langar helgar sömuleiðis. 

TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í Kaupmannahöfn í júlí
NÝJAR GREINAR: Bestu strendur Skandinavíu að mati heimamannaFlestir fara í Tívolí

Mynd: Wonderful Copenhagen / Christian Alsing