Hótel frá náttúrunnar hendi

Frá vori og fram á haust taka hjónin Håkan og Ulrika á móti gestum í timburhúsum sem þau hafa reist út í skógi úr efnum sem fallið hafa til í nágrenninu. Þetta eru samt engin kofaskrifli því húsin þykja svo smekklega sett saman að myndir af þeim hafa birst víða um heim.

Í skóglendinu við vatnið Vättern stendur þessi fallega kofabyggð sem nefnist Urnatur. Hún samanstendur af nokkrum húsum þar sem allt að fjórir geta gist og tréhúsi fyrir þá sem vilja vera einir. Samkomuhús er líka hluti af þyrpingunni enda er töluvert um að hópar bóki gistingu í þessari sveitasælu.

Með fimm umhverfisstjörnur

Urnatur gistiaðstaðan þykir svo vistvæn að hún hefur hlotið fimm stjörnur hjá þeim sem útdeila þess háttar viðkenningum til gistihúsa sem setja náttúruna í öndvegi. Það kostar líka sitt að gista í timburhúsunum eða frá rúmum tuttugu þúsund íslenskum krónum á mann. Innifalið er kvöld- og morgunmatur og aðgangur að viðargufunni.

Það er um þriggja tíma ferðalag frá Malmö og Stokkhólmi til bæjarins Ödeshög þar sem Urnatur er.

 

 

 

 

 

 

TENGDAR GREINAR: Kofasæla á Jótlandi
TILBOÐ: Hótel í Malmö – tveggja manna herbergi á 870 sænskar

Myndir: Ulrika Krynitz © Urnatur.se

Share |