Lestarferðalag aftur í tímann

El Expreso de la Robla er ný lest í gömlum búningi sem keyrir á sögufrægu spori milli Bilbao og Leon í norðurhluta Spánar.

Lestir eru framandi ferðamáti fyrir okkur flest hér á landi. Og sennilega eru þeir ekki ýkja margir Íslendingarnir sem lagst hafa í löng lestarferðalög.  Á Spáni njóta þess háttar reisur vinsælda og El Expreso de la Robla er góður kostur fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt án þess þó að kosta of miklu til. Túristi gerði sér far með lestinni nýverið.

Fyrir unnendur Spánar

Þeir sem fá far með El Expreso de la Robla hafa um leið skráð sig í fjögurra daga skoðunarferð um héruð sem áður voru ein helstu námuvinnslusvæði Spánar. Ferðalagið byrjar og endar í Bilbao en þaðan er keyrt í vestur til borgarinnar Leon og svo tilbaka. Á leiðinni er stoppað á litlum lestarstöðvum þaðan sem farið er í stutta túra út í sveitirnar. Farþegarnir snúa svo tilbaka til lestarinnar margs fróðari um námuvinnslu, uppstoppuð dýr, Rolls Royce bíla, dropahella og gerð baskahúfa. Fjölbreytnin er því töluverð en rauði þráðurinn enginn. Óhætt er að segja að þetta sé ferðalag fyrir þá sem hafa margsinnis ferðast um Spán en eiga eftir að kynna sér þennan hluta landsins eða vilja krydda ferðalagið til Bilbao.

TENGT EFNI: Smáréttasvall að hætti Baska

Þægilega gamaldags

Farþegavagnar El Expreso de la Robla eru innréttaðir í anda millistríðsáranna og um borð er reynt að endurvekja þá stemmningu sem ríkti í fínni farþegalestum á blómatíma þeirra á fyrri hluta síðustu aldar. Fínt klæddir þjónar bera fram drykki á silfurbökkum til farþegana sem sitja við dúkalögð borð eða  í leðursófum og njóta útsýnisins út um gluggann. Daðrið við fortíðina nær þó ekki mikið lengra því í svefnvögnunum eru allir klefarnir útbúnir ágætustu baðherbergjum og skoðunarferðirnar eru farnar í nýmóðins rútum. Og að sjálfsögðu er hægt að komast á internetið hvenær sem er.  

Ekkert léttmeti

Spánverjar eru mikil matarþjóð og farþegar El Expreso de la Robla fá góða sýn á matarkúltúr svæðisins. Máltíðirnar samanstanda nefnilega eingöngu af réttum sem eiga sér ríka hefð í norðrinu. Þar hefur fólk lengi vanist því að vinna við erfið skilyrði og kulda og því eru réttirnir ekkert megrunarfæði heldur kraftmiklir pottréttir og spikaðar súpur. Það snýr því enginn svangur úr ferðinni, svo mikið er

Ferðalag með El Expreso de la Robla kostar frá 595 evrum sem samsvarar um nítíu og fimm þúsund íslenskum krónum. Innifalið eru þrjár máltíðir á dag, skoðunarferðir og að sjálfsögðu gistingin um borð í lestinni. Á heimasíðu lestarfyrirtækisins FEVE má fá nánari upplýsingar um ferðina.

NÝJAR GREINAR: Aukin ferðagleði í kjölfar taps á HM