Menn drekka og konur stunda kynlíf í fríinu

Ólíkt hafast kynin að í fríinu. Ný könnun sýnir að drykkja karlmanna eykst þegar þeir ferðast á meðan konur hafa samfarir oftar en venjulega.

Á meðan að meirihluti karla situr á hótelbarnum eru fleiri konur en ella uppi á herbergi að njóta ásta. Þetta eru niðurstöður könnunar meðal viðskiptavina dönsku ferðaskrifstofunnar Star tour. Þar kemur fram að rúmlega annar hver karlmaður drekkur meira áfengi í fríinu en heima hjá sér. Það sama gildir um fjörtíu prósent kvenna. Hins vegar segir tíunda hver kona að kynlífið sé mun blómlegra í utanlandsferðum en heimafyrir. Undir það taka aðeins þrír af hverjum hundrað körlum.

Rómó að deila flösku

Danskir karlar og konur hafa líka mismunandi hugmyndir um hvað sé rómantískt og það skýrir kannski að hluta til afhverju ástarlíf sumra karla tekur ekki kipp í fríinu. Tæplega sjötíu prósent þeirra þykir nefnilega fátt rómantískara en að deila flösku með frúnni og horfa á sólina setjast. Þriðju hverri konu finnst hins vegar huggulegast af öllu að ganga hönd í hönd með sínum heittelskaða á ströndinni.

Fitna í fríinu

Þessi mikla drykkja karlpeningsins hefur þær afleiðingar að þeir bæta á sig tveimur til fimm kílóum í fríinu. Enda kjósa flestir að svala þorstanum með bjór á meðan konurnar panta sér hvítvín og þyngjast að meðaltali um tvö kíló. Haft er eftir markaðsstjóra Star tour í Jótlandspóstinum að karlar leyfi sér óhollari lífsstíl í utanlandsreisum en konur. Þeir borði meira af feitum mat á meðan konurnar passi sig og borða til dæmis ávexti í stað snakks.

NÝJAR GREINAR: Góðar nektarstrendur við MiðjarðarhafÍ hvaða borg er best að búa?

TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn í júlí.