Noma hækkar verðið

Aukið álag á skrifstofu besta veitingastaðar í heimi er ástæðan fyrir nýlegum verðhækkunum. 

Veitingastaðurinn Noma í Kaupmannahöfn var valinn sá besti í heimi síðastliðið vor. Í kjölfarið töldu danskir blaðamenn það næsta víst að verðin á matseðlinum myndu hækka hressilega því matgæðingar heimsins myndu nú fjölmenna á staðinn og ekki setja verðið fyrir sig.

Í sumar var verðið svo hækkað en ástæðuna höfðu menn ekki séð fyrir því. Hún er nefnilega sú að nauðsynlegt reyndist að ráða nýtt starfsfólk á skrifstofu staðarins til að svara öllum þeim fjölda fyrirspurna sem berast til Noma á degi hverjum. Nafnbótin, besti veitingastaður í heimi, hefur því haft aukin kostnað í för með sér fyrir eigendurna en ekki auknar tekjur samkvæmt frétt Politiken í Danmörku.

Sjö rétta máltíð kostar eftir breytinguna 1095 danskar krónur og nemur hækkunin hundrað dönskum.

Malar ekki gull

Þrátt fyrir að biðlistinn eftir borðum á Noma sé ævintýralega langur þá er hagnaður af rekstrinum ekki mikill. Á síðasta ári nam hann rúmri hálfri milljón danskra króna sem þykir lítið borið saman við veltu og vinsældir. Rene Redzepi, yfirkokkur staðarins, hefur áður sagt að ekki komi til greina að stækka staðinn en í dag eru sæti fyrir fjörtíu manns í salnum. Verðhækkun er þá eina leiðin til að auka tekjurnar en þess bera að geta að Noma er ekki dýrasti veitingastaðurinn í Kaupmannahöfn. Það er Kong Hans Kælder þar sem sjö rétta máltíð kostar fimm dönskum krónum meira en á Noma. Meira var það nú ekki.

TENGDAR GREINAR: Billegasta Michelin maturinn á Norðurlöndum
NÝJAR GREINAR:
Hótel frá nátturunnar hendi
TILBOÐ: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á hótelum í Kaupmannahöfn og Berlín

Mynd: Wonderful Copenhagen