Verða sér til skammar á lúxushótelum

Sífellt fleiri Norðmenn hafa efni á að kaupa sér gistingu á bestu hótelum heims. Þessi hópur kann sig samt ekki innan um allt fína fólkið.

Norsurum er stundum legið á hálsi fyrir að vera sveitalegir. Það þarf því ekki að koma á óvart að framkoma hins ört stækkandi hóps nýríkra Norðmanna þyki ekki til fyrirmyndar meðal ríka og fína fólksins í útlöndum. Frændur okkar átta sig nefnilega ekki á því að það gilda ákveðnar reglur um hegðun og klæðnað á þessum dýrustu hótelum heims samkvæmt grein Bergens Tidende. Í blaðinu er haft eftir Simen A. Johannessen, markaðsstjóra ferðaskrifstofunnar HRG, að Norðmenn verði að gera sér grein fyrir því að það er ákveðið leikrit í gangi á lúxushótelunum og allir gestirnir verði að geta leikið heimsborgararulluna. Þannig tuðar maður ekki yfir verðinu á gistingunni eða matnum, gengur ekki um lobbíið í strandfötum og gleymir ekki að kasta kveðju á dyravörðinn.

Þjórfé þvælist fyrir

Johannessen tekur reyndar fram að fólk eigi ekki að vera hrætt við að kaupa sér dýra gistingu og það sé engin stórkostleg hneisa þó það kunni sig ekki nógu vel. Dvölin verður þó ánægjulegri ef fólk reynir að falla í kramið. Hann mælir því með að hinir nýríku landar sínir fylgist með því hvernig aðrir gestir haga sér og hverju þeir klæðast. Einnig er gott ráð að spjalla við starfsfólkið og þá sérstaklega móttökustjórana sem þekkja hinar óskrifuðu reglur út og inn og geta veitt góð ráð.

Þjórfé veldur mörgum norskum ferðalöngum oft hugarangri en markaðsstjórinn segir það óþarfa áhyggjur. Að hans mati er nóg að láta eina evru eða svo að hendi rakna ef fólk er með klink í vasanum. Annars eigi það bara að sleppa þjórfénu. Það sé hins vegar ágætis regla að lauma smá mynt á dyravörðinn í lok dvalar. Meira þarf það ekki að vera.

TENGDAR GREINAR: Hvar og hvenær á að gefa þjórféDýrustu hótelherbergi í heimi
NÝJAR GREINAR: Huggulega höfuðborgin
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn

Mynd: Fra Plaza Anthenee í París – Sjá grein: Þar sem rokkstjörnurnar gista í París