BP bjargaði ferðamannasumrinu á Flórída

Ferðamönnum fjölgaði töluvert á Flórída í sumar þrátt fyrir olíulekann á Mexíkóflóa. Velheppnuð auglýsingaherferð, fjármögnuð af BP olíufyrirtækinu, er talin hafa skipt sköpum.

Ferðaþjónustan á svæðunum við Mexíkóflóa átti undir högg að sækja í vor. Olía gaus upp úr borholu BP undan ströndinni og rak víða upp á land. Það var því útlit fyrir að ferðamenn myndu halda sig fjarri svæðinu í sumar og í nánustu framtíð. Olíufyrirtækið reyndi að setja plástur á sárin og veitti miklum fjármunum til alþjóðlegrar kynningar á því sem ferðamannastaðirnir í kringum flóann hafa upp á að bjóða.

Engin olía á ströndum Flórída

Strandlengja Flórídaskagans er sennilega vinsælasti áfangastaður túrista á svæðinu og þar hefur engri olíu skolað upp á land. Öllu púðrinu var því eytt í að koma þeim skilaboðum á framfæri innanlands sem utan að strendur Flórída væru í fínu standi.

Þessi herferð skilaði góðum árangri samkvæmt frétt The Telegraph því ferðamönnum á Flórída fjölgaði í sumar um rúm þrjú prósent borið saman við síðasta sumar. Mestu munaði um nærri tólf prósent fleiri gesti frá útlöndum.

Því miður er ekki sömu sögu að segja frá ferðamannastöðunum þar sem olía hefur smitað strendurnar. Því þrátt fyrir auglýsingastyrki frá sökudólgnum fækkaði ferðamönnum um nærri þriðjung frá fyrra ári.

NÝJAR GREINAR: Þrjú misdýr hótel í StokkhólmiStystu biðraðirnar í Svíþjóð
TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í Kaupmannahöfn

Mynd: Jenah Crump (Creative Commons)