Drippedí-dripp og droppedí-dropp

Það rignir að meðaltali þriðja hvern dag í Danmörku en í ágúst hefur varla liðið sá dagur að ekki falla dropi af himni.

Stígvél og regnhlífar seljast eins og heitar lummur hjá frændum okkar Dönum þessa dagana. Tryggingafélög bera sig illa og láta í veðri vaka að iðgjöld á húsatryggingum verði hækkuð um tugi prósenta enda hafa ófáir kjallaranir farið á flot í þessari miklu rigningatíð sem ekki sér fyrir endann á.

Það er því vissara fyrir þá sem eru á leið til Danmerkur á næstunni að pakka niður regnhlíf þó spáð sé ágætis veðri um helgina. 

Sem betur fer hefur Kaupmannahöfn upp á helling að bjóða hvernig sem viðrar. Söfn borgarinnar eru til að mynda full af spennandi hlutum og á Louisiana safninu eru verk Munch og Warhol í aðalhlutverki þessa dagana. Á vel völdum veitingastöðum má fá ódýrari máltíð en ella í tilefni af Copenhagen cooking. Og það getur einnig verið ágætis skemmtun að setjast inn á eitt af kaffihúsum borgarinnar og fylgjast með rennblautum hjólreiðarmönnum þeysa framhjá glugganum. Það er alla vega óþarfi að láta veðrið setja strik í reikninginn.

NÝJAR GREINAR: Þrjú misdýr hótel í Stokkhólmi
TILBOÐ: 10% afsláttur á hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Wonderful Copenhagen / Morten Bjarnhof