Eina eyja Slóvena

Það er fallegt um að litast við fyrrum sumardvalarstað einræðisherrans Tító.

Eina eyja Slóvena er í miðju Bledvatni og rúmar hún rétt svo eina millistóra kirkju. Umhverfi vatnsins er mjög fagurt og líkt og í höfuðborginni Ljubljana gnæfir kastali yfir öllum herlegheitunum.

Bled er vinsæll ferðamannastaður og ber þess merki enda er hótelbyggðin við vatnið þétt og myndamatseðlar á veitingastöðum áberandi. Staðurinn hefur samt sinn sjarma og þangað er nauðsynlegt að koma á ferðalagi um Slóveníu.

Fyrrum einræðisherra Júgóslavíu, Tító dvaldi í Bled á sumrin en villu hans hefur nú verið breytt í hótel fyrir vandláta. Þeir sem kjósa látlausari gistingu fyrir utan bæinn gætu kannað Mulej bændagistinguna sem er í eins kílómetra fjarlægð frá vatninu.


Útivistafólk er í góðum málum á þessum slóðum því þar er fjöldi merktra gönguleiða, sérstaklega í kringum Bohinjska Bistrica ekki svo langt frá. Þar eru ferðamennirnir færri en í Bled og virðast fyrst og fremst komnir til að njóta náttúrunnar. Góðar upplýsingar um útivistarmöguleika á svæðinu eru veittar í upplýsingamiðstöð í bænum og mælst er til að fólk kynni sér málin áður en lagt er í hann upp hæðir og fjöll.

Það tekur um klukkutíma að keyra frá Ljubljana og að Bled vatni.

NÝJAR GREINAR: Hótel frá náttúrunnar hendi
TILBOÐ: 10% afsláttur á hótelíbúðum í Berlín

Mynd: Slovenia.info