Þrjú misdýr hótel í Stokkhólmi

Það kostar rúmar 500 sænskar að gista á einu þeirra, tæpar 1000 á öðru og aðeins meira á því þriðja. Hér eru þrír góðir kostir fyrir þá sem eru að leita að gistingu í Stokkhólmi.

2kronor

Gestirnir deila baðherbergjum og búa frekar þröngt en á móti kemur að verðið er lágt og staðsetningin er frábær. 2 kronor er nefnilega til húsa í gamla bænum, Gamla stan, einhverju fallegasta borgarhverfi sem um getur í norðurhluta Evrópu. Allt í kringum gistihúsið er að finna hluti sem gaman er að skoða og smakka. Og þar sem Gamla stan er hjarta borgarinnar er  stutt í allar áttir. Lestarstöðin Slussen er líka skammt frá 2kronor og þaðan er auðvelt að komast á aðallestarstöðina og út á Arlanda flugvöll. 

Herbergin á 2 kronor rúma einn til sex gesti. Þau minnstu kosta 545 sænskar krónur en tveggja manna herbergi eru á 595. Þeir sem ekki taka með sér sængurföt greiða 65 krónur aukalega fyrir þau. Í kjölfar mikilla vinsælda gistiheimilisins opnuðu eigendurnir nýlega aðra 2 kronor gistingu í Vasastan hverfinu.

2 kronor er við Skeppsbron 40 (sjá á korti).

Story Hotel

Ekkert má minna á hefðbundin hótel inn á þessum nýja gististað í Östermalm hverfinu. Frumlegheitin eru því alls ráðandi. Gott dæmi um það eru höfðagaflarnir. Þeir eru smíðaðir úr útidyrahurðunum sem áður lokuðu íbúðunum í þessari sömu byggingu, áður en henni var breytt í hótel. Bréfalúgur eru því við mörg rúmin.

Story Hotel er líka líflegur staður þar sem vel er hægt að gera við sig í mat og drykk. Reyndar eru fjörið stundum svo mikið að eyrnatappar eru staðalbúnaður í sumum herbergjum.

Herbergin í flokknum „Super Squeeze“ eru þau ódýrustu (990 krónur) en eins og heitið gefur til kynna þá eru þau frekar þröng. Story Hotel hentar þeim vel sem ætla að eiga fjöruga daga í Stokkhólmi

Story Hotel er við Riddargatan 6 (sjá á korti)

Hotel Skeppsholmen

Áður fyrr var þessi fallegi hólmi frátekinn fyrir sænska sjóherinn. Í dag eru sjóliðarnir að mestu horfnir og í þeirra stað rölta um göturnar fólk á leið til og frá nýlistasafninu, Moderna Museet. Skammt frá safninu er að finna þetta hótel sem kennt er við hólmann sjálfan. Hótelbyggingin er meira en þrjú hundruð ára gömul og höfðust kontóristar sænska sjóhersins þar við áður en smekklegir Svíar sáu tækifæri í að breyta henni í einskonar sveitahótel inn í miðri borg.

Ódýrustu herbergin á Hotel Skeppsholmen kosta 1150 sænskar krónur en þeir sem vilja búa aðeins betur þurfa að borga nokkur hundruð sænskar í viðbót.

Hotel Skeppsholmen, Gröna gången 1 (sjá á korti)

TENGDAR GREINAR: Úthugsuð LundúnarhótelÓdýr hótel í Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Parísartíska á stórafslætti
TILBOÐ: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á hótelgistingu í Kaupmannahöfn

Myndir: 2kronor, Story Hotel og Hotel Skeppsholmen