Slútta sumrinu með karnivali

Það verður mikið fjör í Notthing Hill hverfinu í London um helgina þegar hið árlega karnival fer þar fram.

Í London er hefð fyrir því að síðasta útihátið sumarsins sé Notthing Hill karnivalið. Þá fyllast göturnar í þessu rómaða hverfi af fólki í skrautlegum og klæðalitlum búningum sem dansar í takt við kalypsó tónlist sem kemur, líkt og upphafsfólk hátíðarhaldanna, frá Trínidad og Tóbagó. Sölubásar þar sem karabískur matur er á boðstólum eru á hverju horni og karnivalið er því veisla fyrir öll skynfæri.

Hátíðarhöldin hefjast á laugardaginn með stáltunnuhljómsveitakeppni og er stemmningin þá með rólegra móti. Sunnudagurinn er fjölskyldudagur og þá geta þau yngstu farið í stuttar skrúðgöngur um hverfið. Á mánudeginum verður svo eiginlega allt vitlaust. Því þá fjölmenna þeir á svæðið sem ætla sér að sletta úr klaufunum og byrjar partíið snemma þegar aðalskrúðganga karnivalsins leggur í hann. Stuðið heldur svo áfram allan daginn enda er almennur frídagur í Bretlandi á mánudeginum. 

Karnivalið fer alltaf fram síðustu helgina í ágúst og laðar til sín hátt í milljón gesti á ári hverju.

TENGDAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verði
TILBOÐ:
Íbúðarhótel á 99 pund í London

Myndir: Visitlondonimages/ britainonview/ Jon Spaull