Lággjaldahótel í London

Tune Hotels vonast til að valda byltingu í ferðaþjónustunni líkt og Ryanair og Easyjet gerðu á sínum tíma. Um mánaðarmótin opnar fyrsta hótel þeirra í London. Gistingin kostar frá 6500 krónum og fólk borgar aukalega fyrir þrif og handklæði.

Hótelgistingin hjá Tune Hotels verður með því ódýrasta í London
Lággjaldaflugfélögin eru mörg hver lunkin við að rukka farþegana aukalega fyrir farangur, sætaskipan og fleira. Ryanair þykist meira að segja ætla að setja gjaldmæla við klósettin. Forsvarsmenn malasísku hótelkeðjunnar Tune Hotels hafa fetað í fótspor flugfélaganna og selja gistinguna ódýrt en gestirnir þurfa að borga sérstaklega fyrir ýmsa þjónustu sem hingað til hefur verið talin nokkuð sjálfsögð á hótelum.

Þannig kostar aðgangur að sjónvarpi þrjú pund á dag, þrif á herbergi sjö og hálft pund og þeir sem þurfa á hárþurrku að halda borga tvö pund. Hvað sem þessari aukagjaldtöku líður þá er mögulegt að finna gistingu hjá Tune Hotels sem er með því allra ódýrasta sem finnst miðsvæðis í London. En hótelið verður til húsa í Westminster, ekki svo langt frá Big Ben og The London Eye. Ódýrustu tveggja manna herbergin kosta 35 pund sem samsvarar 6500 íslenskum krónum.

Hótelið sem opnar 30. ágúst verður það tíunda í röðinni hjá Tune Hotels en hin eru í Malasíu og Indónesíu.

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á gististöðum Tune Hotels í London

TENGDAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verðiHótel á starfsfólks
TILBOÐ: Gisting í London frá 99 pundum

Mynd: SioW (Creative Commons)