Ódýr og grænblá hótel

Hin þýsku Motel One hótel standa tæplega undir nafni sem lággjaldahótel. Nema af því að þar er nokkuð ódýrt að gista.

Eggið hans Arne Jacobsen er mubla sem kostar skildinginn. Það skýtur því skökku við að sjá þessa dönsku stóla standa í anddyri hótels þar sem hægt er að fá herbergi á 49 evrur. Íburðurinn nær reyndar ekki út fyrir lobbíið því herbergin eru frekar lítil og innréttuð á látlausan hátt.

Staðsetning Motel One hótelanna er þó í flestum tilfellum góð, til dæmis á hótelinu við Alexanderplatz í Berlín þar sem útsendari Túrista gisti. Þaðan er til dæmis stutt í hjarta Mitte hverfisins, Karl Marx breiðgötuna og lestarstöðvar.

Verðlagið á Motel One er nokkuð misjafnt og eins og gefur að skilja eru dýrast að búa á best staðsettu hótelunum í vinsælustu borgunum þegar ferðamannastraumurinn er þar mestur. Þá kosta tveggja manna herbergi hátt í 130 evrur. Þrátt fyrir það stenst Motel One ágætlega allan verðsamanburð, sérstaklega þegar staðsetning og aðbúnaður eru tekin með í reikninginn. En öll þrjátíu hótel keðjunnar eru ný af nálinni og húsgögnin því ekki orðin slitin og sjúskuð. 

Það hafa sennilega fáir gestir Motel One skrifað um þau heim enda vart hægt að hugsa sér hlutlausari gistingu, ef frá er talinn þessi grænblái litur sem er á veggjunum, rúmteppunum og auðvitað egginu hans Arne.

Motel One hótelin er að finna í flestum þeim þýsku borgum sem flogið er til beint frá Íslandi; Frankfurt, Hamborg, Dusseldorf, Munchen, Stuttgart og Berlín.

Sjá heimasíðu Motel One.

TENGDAR GREINAR: Úthugsuð Lundúnarhótel á góðu verðiÞrjú misdýr hótel í Stokkhólmi
NÝJAR GREINAR: Stystu biðraðirnar eru í Svíþjóð
TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í Kaupmannahöfn

Myndir: Motel One

 

  Bookmark and Share