Þrjátíu prósent dýrara að leigja bíl

Bílaleigur á vinsælustu ferðamannastöðunum hafa selt sig dýrt í sumar samanborið við síðasta ár. Í Tyrklandi hefur verðið næstum því tvöfaldast á milli ára.

Vikuleiga á bíl í útlöndum kostar varla undir fimmtán þúsund krónum og yfir hásumarið má reikna með tvöfalt eða þrefalt hærri upphæð. Það eru því ekki góðar fréttir fyrir ferðamenn að verðið á þessari þjónustu fer hækkand ef marka má niðurstöður verðkönnunar vefsíðunnar Carrentals.co.uk sem sagt er frá á ferðavefnum Standby. Þar kemur fram að verð á bílaleigubílum í tíu vinsælum ferðamannalöndum hefur hækkað um þrjátíu prósent að jafnaði, borið saman við sama tíma í fyrra. 

Hækkunin er mest í Tyrklandi, eða 76 prósent á meðan verðið í Bandaríkjunum og Króatíu hefur hækkað um tæplega helming.  Prísinn á Spáni og Frakklandi er um fjörtíu prósent hærri og í Bretlandi nemur hækkunin innan við tíund.

Eina landið af þessum tíu þar sem verðið hefur lækkað er Grikkland. Þar lækkaði það um sjö af hundraði. En gríska ferðaþjónustan hefur átt í vök að verjast í allt sumar vegna þess óvissuástand sem ríkir í landinu vegna efnahagsþrenginganna og það skýrir væntanlega verðlækkunina.

NÝJAR GREINAR: Þrjú misdýr hótel í Stokkhólmi
TENGDAR GREINAR: Ferðamenn sniðganga Grikkland
TILBOÐ: Íbúðahótel í Berlín – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: brewbooks (Creative Commons)