Vatíkanið setur strangari reglur um klæðaburð

Nú er það ekki aðeins í Péturskirkjunni þar sem berar axlir og hné mega ekki sjást. Bannið á núna við um allt Vatíkanið, ferðamönnum og óbreyttum Rómverjum til mikils ama.

Það er ekki óalgengt að ferðamönnum í stuttbuxum sé snúið við í anddyri kaþólskra kirkna við Miðjarðarhafið. Í Péturskirkjunni í Vatíkaninu í Róm hefur það til dæmis tíðkast lengi að vísa fólki frá sem ekki er viðeigandi klætt að mati klerkanna sem þar ráða. Léttklædd fólk hefur þó fengið aðgang að öðrum merkisstöðum á svæðinu án nokkurra málalenginga. En nú hafa prestarnir og nunnurnar í Vatíkaninu fengið nóg af því horfa upp á bera líkamshluta og sett blátt bann við því að fólk gangi um ríkið fáklætt.

Þessar ströngu reglur valda ekki aðeins túristum vanda heldur líka Rómverjum sem eiga erindi í Vatíkanið, til dæmis pósthúsið, yfir sumarmánuðina þegar hitinn er yfir þrjátíu gráður að jafnaði.

Hér eftir verða því allir sem ætla að skoða Vatíkanið á ferð sinni um Róm að taka með sér síðar buxur eða pils og bol með ermum til að fá leyfi til að rölta þar um.

NÝJAR GREINAR: Eina eyja Slóvena
TENGT EFNI:
Vilja ekki hálfnakta túrista
TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í Berlín