Vilja orlofsíbúðir burt úr París

Mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í miðborgar Parísar. Yfirvöld ætla að beita gömlum lögum til að koma heimamönnum inn í orlofsíbúðir útlendinga og ráða þannig bót á vandanum.

Það er óheimilt að leigja út íbúð til skemmri tíma en eins árs í höfuðborg Frakklands. Þessum lögum hefur ekki verið fylgt hingað til en nú kann að verða breyting á því Parísarbúum gengur illa að finna íbúðir á viðráðanlegu verði í borginni. Á sama tíma er talið að tugir þúsunda íbúða séu leigðar út til ferðamanna í stuttan tíma í einu.

Borgarstjóri Parísar hefur því sent bréf til leigusala þar í bæ og tilkynnt að breytingar séu í farvatninu. Hefur þetta útspil valdið töluverðum usla á markaðnum fyrir orlofsíbúðir og dæmi um að fólk hafi tekið út auglýsingar fyrir íbúðirnar sínar á netinu og hjá leigumiðlurum af ótta við að yfirvöld neyði þau til að leigja Frökkum íbúðina.

Samkvæmt frétt New York Times eru flestar orlofsíbúðir í París í eigu útlendinga sem dvelja þar sjálfir í nokkrar vikur á ári en leigja þær út aðra daga. 

París er vinsælasta ferðamannaborg í heimi og næsta víst að hóteleigendur borgarinnar fagna þessari viðhorfsbreytingu borgaryfirvalda til orlofsíbúða.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir, ParísÞar sem rokkstjörnurnar gista í París

Mynd: Paris info