Grunaðir um að halda uppi hótelverði

Viðskiptahættir stjórnenda Booking.com eru til skoðunar hjá breska samkeppniseftirlitinu vegna gruns um verðsamráð.

Netsíðan Booking.com er meðal þeirra allra vinsælustu þegar kemur að hótelbókunum. Verðin sem þar eru í boði eru líka oftar en ekki þau lægstu á markaðinum. Og það er einmitt ástæðan fyrir rannsókn breska samkeppniseftirlitsins.

Samkeppnisaðili síðunnar segist nefnilega ítrekað hafa fengið kvartanir frá hóteleigendum í sumar þegar hann bauð gistingu á hótelunum þeirra á lægra verði en Booking.com. Hótelstjórarnir báru fyrir sig samkomulag þess efnis að Booking.com fengi ávallt að bjóða lægsta verðið. Þessir viðskiptahættir hafa hugsanlega komið í veg fyrir eðlilega verðmyndun á hótelmarkaðinum og því er málið nú til rannsóknar samkvæmt frétt The Times. 

Ef forsvarsmenn fyrirtækisins verða fundnir sekir eiga þeir von á háum sektum og málshöfðun. Talsmaður þess segir í viðtali við The Times að engar reglur hafi verið brotnar og undirstrikar að hótelum er það í sjálfsvald sett hvort þau bjóði herbergi til sölu á síðunni eða ekki.

NÝJAR GREINAR: Þar sem kaffi cortado kallast Gíbraltar
TILBOÐ: Gistiheimili og hótelíbúðir í London frá 99 pundum

Mynd: Wikicommons