Hótel Ikea í Smálöndunum

 

Í þá daga þegar Ikea búðirnar voru bara tvær komu viðskiptavinirnir oft langt að. Það var því ekki annað að gera en að reisa hótel á bílastæðinu til að gera innkaupaferðina auðveldari.

Nokkrum árum eftir að fyrsta Ikea búðin opnaði í bænum Älmhult, í suðurhluta Svíþjóðar, voru vinsældir hennar það miklar að fólk streymdi þangað frá öllum landshlutum. Bærinn var hins vegar ekki undir þetta ferðamannaflóð búinn og því var opnað mótel, að amerískri fyrirmynd, við enda bílastæðisins.

Nærri því fjörtíu árum síðar eru Ikea vöruhúsin orðin nærri því óteljandi og ekki svo margir sem þurfa að leggja á sig langt ferðalag í Ikea. Hótelið er engu að síður enn á sínum stað þó stærsti hluti gestanna séu starfsmenn keðjunnar sem mættir eru til Älmhult til að fræðast um það nýjasta í heimi sænska húsgagnarisans.

Allir innanstokksmunir hótelsins eru að sjálfsögðu framleiddir í verksmiðjum eigandans og uppskriftirnar á matsölustaðnum eru fastakúnnum Ikea að góðu kunnar. Það þarf því ekki að koma á óvart að gistingin er frekar ódýr (frá 725 sænskum krónum).

Ferðamenn á leið um sænsku Smálöndin sem vilja fá góðan nætursvefn á Sultan dýnu og hengja fötin sín inn í Pax skáp eru því í góðum málum á Ikea hótelinu.

NÝJAR GREINAR: Ódýr og grænblá hótel í Þýsklandi
TILBOÐ: Afsláttur fyrir lesendur Túrista á gistingu í Kaupmannahöfn
 

Mynd: IKEA hotell / Värdshuset