SAS auglýsir eftir samkynhneigðu pari

Hommar og lesbíur í giftingarhugleiðingum, sem vilja fá smá athygli, geta gengið í það heilaga í boði skandinavíska flugfélagsins SAS ef heppnin er með þeim.

Í desember næstkomandi verður fyrsta samkynhneigða parið gefið saman í háloftunum ef áætlanir flugfélagsins ganga eftir. Athöfnin fer fram um borð í vél fyrirtækisins á leiðinni frá Stokkhólmi til New York. Vígslan verður rétt eftir flugtak á meðan vélin er ennþá í sænskri lofthelgi þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru leyfð í Svíþjóð.

SAS auglýsir nú eftir pörum sem vilja taka þátt í þessu markaðstrixi sem ætlað er að vekja athygli á félaginu meðal samkynhneigðra vestanhafs. Samkvæmt því sem haft er eftir talsmanni þess í dönskum fjölmiðlum.

Eitt par verður dregið úr hópi umsækjenda og mun það fá að launum brúðkaupsferð til Los Angeles.

NÝJAR GREINAR: Ódýr og grænblá hótel í Þýskalandi
TILBOÐ: Hótelíbúðir í London frá 99 pundum

Mynd: SAS