Þar sem kaffi cortado kallast Gíbraltar

Þeir sem vilja fá jafn mikið magn af espressó og flóaðri mjólk í kaffibollann sinn finna ekki alltaf þessa spænsku blöndu, sem kallast cortado, á matseðlum kaffihúsa. Á einu slíku í Bandaríkjunum gengur drykkurinn undir dulnefni sem aðeins fastagestir þekkja.

Þrátt fyrir að cortado njóti hylli víða og sé á færi hvaða kaffibarþjóns sem er þá hafa margir sleppt því að hafa hann á boðstólum. Og þó viðskiptavinirnir bjóðist til að veita smá leiðsögn þá er afgreiðslufólkið oft tregt til að láta undan eða skýlir sér á bakvið flókið kassakerfi.

Sumstaðar er þessum drykk haldið leyndum, til dæmis á hinni rómuðu bandarísku kaffihúsakeðju Blue Bottle Coffee.  Þar gengur cortado undir dulnefninu Gíbraltar og er ekki á töflunni yfir þá drykki sem í boði eru. Það eru því aðeins fastakúnnar og túristar, sem lesa grein eins og þessa, sem vita hvernig hægt er að fá þennan góða drykk. Heitið Gíbraltar er fengið frá glasategundinni sem drykkurinn er borinn fram í.

Blue Bottle Coffee opnaði fyrr á árinu sitt fyrsta útibú í New York, nánar tiltekið í Brooklyn. Þar er eingöngu boðið upp á kaffi úr nýristuðum, lífrænt ræktuðum baunum og staðurinn laðar til sín kaffinörda úr öllum áttum. Kaffiþyrstir Íslendingar sem ætla sér að leita í örlítið hagstæðara verðlagið í Brooklyn næst þegar ferðinni er heitið til New York vita þá núna hvernig best er að verða sér út um hressingu þar sem fullkomið jafnvægi er á milli kaffisins og mjólkurinnar.

TILBOÐ: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á hótelgistingu í Kaupmannahöfn
TENGDAR GREINAR: Einföld gisting í flottum umbúðum í New York
NÝJAR GREINAR: Tívolí opnar hótel við götu Árna Magnússonar

MYND: Clay McLachlan/ClayPix.com