Tívolí opnar hótel við götu Árna Magnússonar

Tívolí í Kaupmannahöfn opnaði í dag hótel í seilingarfjarlægð frá sjálfum skemmtigarðinum. Fyrir okkur Íslendinga eru það þó merkilegri tíðindi að hótelið stendur við nýja götu sem nefnd er eftir Árna Magnússyni handritasafnara.

Á nýjasta hótelinu í Kaupmannahöfn geta gestirnir upplifað einskonar tívolístemmningu frá morgni til kvölds. Maturinn, innréttingarnar og afþreyingin er öll í anda skemmtigarðsins vinsæla sem stendur í eins kílómetra fjarlægð frá þessari tólf hæða byggingu. Tívolíhótelið er hefðbundið þemahótel eins og ósjaldan standa við vinsæla skemmtigarða. Eigendur Tívolí hafa lengi látið sig dreyma um að opna eitt slíkt í garðinum sjálfum við hlið Ráðhústorgsins. Borgaryfirvöld hafa hins vegar ekki verið hrifin af þeirri hugmynd. Því var hótelinu fundinn staður við nafnlausa götu á svæði við lestarstöðina sem þá var verið að endurskipuleggja.

Arni Magnussons gade verður til

Stjórnendur skemmtigarðsins lögðu til að gatan sem hótelið stendur við yrði kölluð Tívolítorg. Sú hugmynd var hins vegar kolfelld í skipulagsráði borgarinnar og síðar var samþykkt tillaga um að hún yrði nefnd í höfuðið á Árna okkar Magnússyni, Arni Magnussons gade. Upphaflega átti reyndar að sleppa fornafninu. Ástæðan fyrir því að þetta nafn varð fyrir valinu er sú að hverfið sem verið er að reisa á svæðinu er byggt í kringum ný húsakynni danska ríkisskjalasafnsins. Það þótti því viðeigandi að nefna allar göturnar í höfuðið á þekktum rannsóknar- og vísindamönnum. En Árni var prófessor við Kaupmannahafnarháskóla á meðan hann safnaði saman íslensku handritunum eins og segir í rökstuðningi skipulagsnefndar Kaupmannahafnar fyrir nafngiftinni.

Miði í Tívolí fylgir herberginu

Það er ekki ódýrt að gista á nýja hótelinu. Herbergi fyrir fjögurra manna fölskyldu kostar rúmar tvö þúsund danskar og innifalið í verðinu er miði í Tívolí og öll þau tæki sem þar eru. 

Heimasíða Tívolí hótelsins.

TILBOÐ: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á hótelgistingu í Kaupmannahöfn

Mynd: Tivoli hotel